Glataðir markaðir?

Deila:

„Áhrif úrsagnar Bretlands úr EES Við úrsögn Bretlands úr ESB mun Ísland að óbreyttu glata núverandi markaðsaðgangi fyrir sjávarafurðir þar. Útilokað er að fullyrða hvernig tollaumhverfið í Bretlandi verður eftir úrsögnina þar sem ekkert liggur fyrir um hvernig tollskrá Bretlands muni líta út og hversu háir tollar verða lagðir á einstakar afurðir. Í þeim efnum verða Bretar einungis bundnir að því leyti að almennir tollar (MFN-tollar) á einstakar afurðir mega ekki vera hærri en tollabindingar ESB, samkvæmt GATT-samningi WTO, (sem eiga einnig við um Bretland) segja til um.“

Þetta kemur fram í  nýrri skýrslu íslenskra stjórnvalda, Ísland og Brexit: Greining hagsmuna vegna útgöngu Bretlands úr EES. Þar er lagt mat á áhrif þess að ákvæði EES-samningsins giltu ekki lengur í samskiptum við Bretland. Þar segir svo ennfremur:

„Tryggja mætti áframhaldandi greiðan markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir til Bretlands með gerð hagfellds fríverslunarsamnings, tvíhliða eða með hinum EFTA-ríkjunum. Slíkur samningur gæti jafnvel skapað tækifæri fyrir enn greiðari aðgang en nú er ef tollar féllu einnig niður af afurðum sem nú bera toll inn til ESB. Greiðari markaðsaðgangur gæti þannig náð til þeirra afurða sem tilgreindar voru í töflu hér að framan og ætti ekki síst við um ýmsar framleiðsluvörur úr fiskafurðum. Með niðurfellingu tolla af unnum afurðum gætu skapast tækifæri til meiri vinnslu afurðanna hér á landi og útflutnings þeirra til Bretlands sem fullunninnar vöru. Þetta á einkum við um framleiðsluvörur úr tegundum sem njóta ríkrar tollverndar við innflutning til ESB í dag, s.s. makríl, síld, lax og túnfiski.

Rækja er þriðja stærsta útflutningsvaran til Bretlands. Bretar hafa lengi vel verið langstærsti kaupandi rækju og verksmiðjurnar hérlendis eru háðar góðum aðgangi að breskum markaði. Rétt er að hafa í huga að 60% af þeirri rækju sem unnin er á Íslandi kemur innflutt frá Kanada. 10.600 tonn koma þaðan til vinnslu árið 2015 og 6.300 tonn af rækju veiddust sama ár við Ísland.

Mikilvægt er að hafa í huga að tryggja að Ísland njóti ekki síðri markaðsaðgangs fyrir rækju inn til Bretlands og Kanada. Kanadamenn hafa ekki unnið frosna rækju hingað til en það eru líkur á því að þeir fari í slíka framleiðslu. Almennt séð gildir það sama um hvítfiskinn og rækjuna, mikilvægt er að tryggja íslenskum afurðum hagstæðan að- gang að Bretlandsmarkaði sambærilegan við helstu samkeppnisþjóðir okkar.“

Á meðfylgjandi mynd má finna yfirlit yfir helstu sjávarafurðir sem fluttar voru út til Bretlands á árunum 2015-2016 mælt í magni.

Útflutningur til Bretlands

Deila: