Þveröfug áhrif!

Deila:

„Rúmlega 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt út og seld á alþjóðlegum markaði. Án fótfestu þar væri íslenskur sjávarútvegur hvorki fugl né fiskur! Kostnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja heima fyrir hefur því afgerandi áhrif á það hvernig þeim gengur í alþjóðlegri samkeppni.“

Svo segir í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en í pistlinum er fjallað um innlendan kostnað og álögur sem falla á íslenskan sjávarútveg og veikja samkeppnisstöðu hans gagnvart erlendum keppinautum. Pistill er svo hljóðandi:

„Helstu samkeppnisaðilar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja búa ekki við sambærileg skilyrði. Fiskiskipaflotinn í flestum ríkjum Evrópusambandsins nýtur raunar undanþágu frá eldsneytissköttum. Má hér til dæmis nefna sjávarútvegsfyrirtæki í Danmörku, Þýskalandi og Portúgal. Eitt helsta samkeppnisland íslensks sjávarútvegs er Noregur. Þar tíðkast að kolefnisgjald, sem útgerðir fiskiskipa greiða, er endurgreitt. Rökin fyrir þessu fyrirkomulagi eru þau að stærri skip geta keypt olíu annars staðar en í Noregi, en minni skip sem veiða á strandsvæðum innan norsku 12 mílna landhelginnar, hafa ekki þennan möguleika. Til að rétta af samkeppnisstöðu útgerða endurgreiða norsk stjórnvöld útgerðum þar í landi kolefnisgjaldið. Í raun er fiskiskipaflotinn á Íslandi sá eini í Evrópu sem nýtur engrar undanþágu frá eldsneytissköttum. Það gefur því auga leið að það veikir samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Skattheimta þessi kemur til viðbótar við aðra opinbera gjaldtöku í ýmsu formi sem sjávarútvegsfyrirtæki hér á landi þurfa að sæta og er langt umfram þá gjaldtöku sem erlendir samkeppnisaðilar búa við. Er það athyglisvert í ljósi þess hve ríka áherslu stjórnvöld leggja á samkeppnishæfni greinarinnar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir orðrétt: „Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna“. Þetta raungerist ekki nema innlendum kostnaði verði stillt í hóf og að hann samrýmist því sem gerist og gengur í helstu samkeppnislöndum. Ávallt ber að hafa í huga að sjávarútvegsfyrirtæki eða önnur útflutningsfyrirtæki hér á landi, geta ekki skellt kostnaðarhækkun sem bundin er við Ísland út í verð afurða sinna eða þjónustu, líkt og fyrirtæki í samkeppni innanlands geta gert.

Gjaldtaka úr hófi fram hefur þó ekki aðeins áhrif til hins verra á samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs. Hún hefur einnig áhrif á hvernig íslenskum sjávarútvegi tekst til í umhverfismálum. Þar er mikið undir. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ekki látið sitt eftir liggja og hafa nú þegar dregið verulega mikið úr olíunotkun og reiknað er með enn frekari samdrætti á næstu árum. Svigrúm til aukinna fjárfestinga skiptir þar höfuðmáli, enda gerir það fyrirtækjum kleift að skipta eldri skipum út fyrir sparneytnari og afkastameiri skip sem og öðrum búnaði.

Markmið kolefnisgjaldsins var að hvetja til notkunar á vistvænni ökutækjum, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum. Kolefnisgjaldið getur því miður haft þveröfug áhrif – það eykur kostnað íslenskra fyrirtækja umfram það sem erlendir samkeppnisaðilar búa við. Slíkt dregur úr samkeppnishæfni, rýrir afkomu íslensku fyrirtækjanna og þar með svigrúm til fjárfestinga. Um leið dregur úr líkunum á því að markmiðinu með gjaldinu verði náð.”
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: