Fjallað um veiðarfæri í nýjasta Ægi

422
Deila:

Umfjöllun um veiðarfæri er megin inntak fyrsta tölublaðs Ægis á þessu ári, en þar er margt fleira að finna. Fjallað er um línubátinn Háey, sem reynst hefur vel í fyrstu róðrunum, um vinnslu gelatíns úr þorskroði í Grindavík og stillanlega MDL toghlera, sem reynast vel. Rætt við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti NK, Sigurð Þórleifsson, umboðsmann Mustad á Íslandi, Hermann Hrafn Guðmundsson rekstrarstjóra Hampiðjunnar á Akureyri, Hörð Jónsson, framkvæmdastjóra Veiðarfæraþjónustunnar í Grindavík og Óskar Pétur Friðriksson, rekstrarstjóra Hampiðjunnar  í Vestmannaeyjum.

„Loðnan á alltaf séns og fær að njóta vafans, segir Tómas Kárason, skipstjóri á uppsjávarskipinu Beiti NK aðspurður í viðtali hér í blaðinu hvort tæknin í veiðarfærastjórnuninni sé orðin slík að fiskurinn eigi enga undankomuleið.

Við tökum púlsinn í veiðarfæraþjónustunni í Ægi að þessu sinni og hvar sem drepið er niður fæti heyrist að loðnuveiðarnar hafa framkallað mikil verkefni við troll og nætur. Dæmigert fyrir þá innspýtingu sem veiðarnar hafa í för með sér fyrir æðakerfi samfélagsins. Líkt og Óskar Pétur Friðriksson hjá Hampiðjunni í Vestmannaeyjum bendir á þá verður uppsveifla á öllum sviðum atvinnulífsins í Eyjum þegar loðnan veiðist. Mikið tekjuflæði fyrir sjávarútvegsbyggðina í heild, allt frá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum niður í hárgreiðslustofur. Og allt þar á milli. Hjartsláttur byggðanna er aldrei skýrari og greinilegri en einmitt við þessar aðstæður,“ segir ritstjóri Ægis, Jóhann Ólafur Halldórsson, í leiðara blaðsins.

Deila: