Illa lyktandi búrhvalur í fjörunni

Deila:

Tófur og hrafnar við Heggstaðanes í Húnaþingi vestra gleðjist um þessar mundir en ábúendur á Bessastöðum eru ekki eins hrifnir af nýjum nágranna. Illa lyktandi búrhvalshræ liggur nú í fjörunni og rotnar. Frá þessu er greint á ruv.is

Sér ferlíkið út um gluggann

Þrettán metra langur búrhvalur virðist hafi villst af leið og rekið á land skammt frá bænum Bessastöðum á Heggstaðanesi. Hvalurinn er þrátt fyrir hrakfarirnar nokkuð heillegur. Guðný Helga Björns­dótt­ir, bóndi á Bessastöðum rak augun í hvalinn á föstudaginn. „Það var nú bara litið út um gluggann hérna að þá sjáum við hann. Hann er hérna rétt niður í fjöru. Það var náttúrlega bara hlaupið til og skoðað ferlíkið því þetta er því þetta var og er mjög stór hvalur,“ segir Guðný. 

Tófur og hrafnar sækja í hvalinn

Hvalurinn er byrjaður og rotna og er lyktin eftir því. „Það er svolítil lykt út úr honum, vond lykt. Allavegana er mjög óskemmtilegt að standa framan við hann. Það gýs út úr honum veruleg fýla. En það er ekkert farið að bera á lykt hérna heim ennþá því hann er bara nýlega dauður.“ 

Þú vilt þá væntanlega losna við hann áður en þetta fer að gera út af við ykkur?

„Já hann er bara 100 metra frá bænum þannig að ef það er sunnanátt þá stendur hann bara beint uppá. Svo erum við með gistiheimili líka og það eru örugglega ekki allir sem vilja sofa í hvalabrælu lykt. Svo náttúrulega hrúgast á okkur hrafn og svartbakar og tófan er farin að vappa þarna í fjörunni. Þetta er friðað dýr, það má ekkert hirða neitt. En svo er víst töluvert verðmæti í tönnunum á honum. Safnarar eru að nota þær og skera út en það er frekar ófrýnilegt að nálgast þær.“

Þannig að þú sérð ekkert fyrir þér að vaða upp í hann og sækja tennurnar?

„Nei ég ætla ekki að gera það.“

Varðskipið á leiðinni

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er reiknað með að varðskipið Freyja komi á staðinni á föstudag til að skoða dýrið og meta aðstæður. 

Deila: