Grilluð lúða

Deila:

Nú bjóðum við upp á uppskrift af grillaðri lúðu. Hana er yfirleitt hægt að fá í góðum fiskbúðum, þó beinar veiðar á lúðu séu bannaðar. Komi lúða í veiðarfæri ber að sleppa henni í sjóinn aftur sé hún lífvænleg. Ef ekki skal henni landað á fiskmarkaði og rennur andvirði hennar í sjóð sem styrkir rannsóknir og þróun í sjávarútvegi. Þess vegna ratar lúðan oftast í fiskbúðirnar.

Smálúða er alveg dásamlegur matur, hvernig sem hún er elduð og hennar er gott að njóta með nánum ástvinum. Svo er hún líka einstaklega holl vegna hás innihalds fjölómettaðra fitusýra, Omega3.

Innihald:

2 msk brætt smjör

2 msk hunang

safi úr hálfri sítrónu

2 tsk soja sósa

½ tsk svartur pipar

4 hvítlauksrif, marin

800 g smálúðuflök

Aðferð:

Blandið saman smjöri, hunangi, sítrónusafa, sojasósu pipar og hvítlauk saman í skál. Skerið lúðuna í fjóra jafna bita.

Penslið bitana beggja vegna með blöndunni.

Hitið góða grillpönnu vel, þannig að vatnsdropi gufi upp nær samstundis. Snöggsteikið lúðuna í eina og hálfa mínútu á hvorri hlið. Lækkið síðan hitann niður í meðalhita og steikið bitana áfram í 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til lúðan er steikt í gegn. Tíminn fer nokkuð eftir þykktinni á bitunum.

Með þessum rétti gott af hafa ferskt salat, soðnar nýjar kartöflur eða hrísgrjón.

 

 

Deila: