Djúpt vantraust meðal sjómanna í garð útgerðar
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, telur að meginágreiningur í kjaradeilu sjómanna liggi í verðlagsmálum, en sjómenn vilja að markaðsverð á sjávarafurðum verði látið gilda í launauppgjöri. Eftir að hafa farið um landið telur Guðmundur að vantraust sjómanna gagnvart fyrirtækjum í sjávarútvegi sé djúpt og menn treysti því ekki að það verði af þeim breytingum sem náð hafi verið fram í samningum samkvæmt frétt á ruv.is
Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir síðan um miðjan desember. Sjómenn felldu kjarasamning sem gerður var um miðjan nóvember í rafrænni atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan var kunn 14. desember og sama kvöld skall verkfall á. Vélstjórar felldu líka samning sem samninganefnd þeirra hafði gert nokkrum dögum síðar, en þeir eru hins vegar ekki í verkfalli.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – SFS hafa samþykkt heimild til boðunar verkbanns á vélstjóra sem hefst föstudagskvöldið 20. janúar 2017, hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma.
Forsvarsmenn Sjómannasambands Íslands vildu ekki veita Speglinum viðtal þegar eftir því var leitað – töldu vænlegra að tjá sig ekki neitt um kjaradeiluna fyrr en eftir sáttafund á fimmtudag.
Uppsafnaður vandi
Sjómenn hafa fellt kjarasamning tvisvar á skömmum tíma. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, veltir því fyrir sér hvort samningsumboð forystumanna sjómanna sé nógu sterkt. „Það gerir stöðuna ef til vill aðeins erfiðari þegar við höfum í tvígang gert samninga við þessa sömu samninganefnd þar sem við höfum talið okkur hafa vissu fyrir því að samninganefndin geti fengið þessa samninga samþykkta af hálfu sjómanna, sem síðar reyndist ekki rétt mat. Þegar gengið er inn í þriðju tilraun hefur maður að sjálfsögðu efasemdir. […] Það hræðir mann aðeins að maður geti ekki gengið að því sem vísu að það verði einhugur um það meðal þeirra sem sitja við borðið á móti okkur að tala fyrir þeim samningum sem þeir hafi gert.“
Guðmundur segir vandann uppsafnaðan og spennan sé mikil. Tíma þurfi til að vinda ofan af spennunni. Útgerðin þurfi að ná sátt við sjómenn um verðlagsmálin. „Það geti verið upphaf. Það getur vel verið að hluti af lausninni núna við gerð kjarasamninga sé að gera samning í eitt ár. Það verður þá bara styttri tími sem við höfum til að vinda ofan af þessari spennu og laga hlutina. Það gæti verið innlegg. Síðan eru náttúrlega eins og annað atriði sem hafa verið að koma upp í sambandi við umræðuna: Sjómannaafslátturinn, olíugjaldið og nýtniákvæðið og ýmiss önnur atriði.“
Óánægja sjómanna skiljanleg
Heiðrún Lind segir erfitt að átta sig á því hvar meginágreiningurinn liggi í kjaradeilu sjómanna. Þegar samningurinn var felldur í annað sinn hafi forsvarsmenn samninganefndar sjómanna sagt að fallist hafi verið á margar veigamiklar kröfur þeirra í viðræðunum og engar kröfur SFS og þeir talið samningana góða. Hún skilji óánægjuna í dag með launin í dag vegna styrkingar krónunnar. „Við sæjum það sjálf, við sem vinnum í landi, ef við sæjum á launaseðlinum okkar 15, 20, 25 prósent lækkun á þeirri fjárhæð sem við fáum inn á reikninginn okkar um hver mánaðamót, þá værum við ekki sátt við það. Sjómenn eru hinsvegar ekki á föstum launum heldur hlutaskiptum og deila því gleði og sorg með útgerð.“
Óánægja sjómanna með gengissveiflu krónunnar sé skiljanleg. „Óánægja sjómanna verður hinsvegar ekki læknuð í kjarasamningum.“
Guðmundur telur mögulegt að sjómannaafslátturinn sem stjórnvöld afnumdi hefði getað hjálpað til í niðursveiflunni. Niðurstöður könnunar sem VM gerði meðal félagsmanna um áhersluatriði í kjaraviðræðum verði kynnt á morgun.
Næsti fundur á fimmtudag
Segja má að deilan sé í hnút. Síðasti sáttafundur var 20. desember en hann var mjög stuttur. Næsti fundur verður eftir tvo daga á fimmtudag. Heiðrún segir að raunsæi sé lykilorðið til að samningar náist. Óvissa un stjórn landsins og hverskonar gjöld verði lögð á atvinnugreinina í framtíðinni. Semja verði út frá þeirri stöðu sem nú er uppi.
Guðmundur segir deiluna alvarlega því atvinnugreinin sé viðkvæm. Báðir aðilar verði að sýna ábyrgð og vanda sig. „Það þarf lítið að gerast til að við missum tökin á þessari deilu.“