Engey á heimleið

Deila:

,,Þetta er glæsilegt skip og ef allt gengur að óskum þá getum við lagt af stað heimleiðis í kvöld. Ég geri ráð fyrir að heimsiglingin taki 13 til 14 daga en það á eftir að koma í ljós,“ sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Engey RE, er heimasíða HB Granda náði af honum í Tyrklandi í gærmorgun.

Ísfisktogarinn Engey RE, sem verið hefur í smíðum fyrir HB Granda í Tyrklandi, var að taka olíu fyrir heimsiglinguna er rætt var við Friðleif en mikil snjókoma síðustu daga hefur orðið til að seinka brottför skipsins.

Sjö manna áhöfn siglir skipinu heim. Auk Friðleifs munu bróðir hans, Einar Bjarni Einarsson, stýrimaður, Emil Sigurður Magnússon, stýrimaður, Bjarni Bjarnason, matveinn, Magnús Sigurðsson, yfirvélstjóri og vélstjórarnir Sigurður R. Sigurðsson og Siguróli Sigurðsson standa vaktina á heimsiglingunni.

Engey RE er 54,75 metrar að lengd og 13,5 metrar að breidd. Aðalvélin er af gerðinni MAN 6L27/38 og er skráð afl hennar 1.790 kW við 800 snúninga á mínútu. Niðurfærslugír er frá Reintjes með PTO fyrir ásrafala. Skrúfa er frá MAN og er hún 3.800 mm í þvermál. Vélin er útbúin með mengunarvarnarbúnaði af gerðinni SCR Catalysator. Ljósavélar eru tvær og eru þær af gerðinni MAN D2840 LE 301. Afl hvorrar um sig er 443kW.  Spilkerfið er frá Naust Marine og eru allar vindur rafknúnar. Bógskrúfa er frá Brunvoll og er hún 300 kW. Millidekks- og lestarbúnaður verður smíðaður hjá Skaganum 3X og verður hann settur í skipið á Íslandi. Hönnuður skipsins er Alfreð Tulinius skipatæknifræðingur hjá Nautic ehf.

Þess má geta að eftir komu til heimahafnar verður siglt til Akraness en þar mun Skaginn hf. setja vinnslubúnað og karaflutningskerfi í skipið.

Deila: