Samskip, Smurfit Kappa og BCTN Roermond taka höndum saman
Smurfit Kappa, sem er stór framleiðandi á pappír og pappírsumbúðum, Samskip og prammaflutningafyrirtækið BCTN Roermond (BCTN) hafa náð saman um hagkvæma og umhverfisvæna flutningsleið sem léttir þungaflutningum af vegakerfinu í Evrópu.
Samskip annast flutninga á pappírsvörum sem sendar eru í gámum innan Evrópu til pappaverksmiðju Smurfit Kappa í Roermond í Hollandi. Til að bregðast við umtalsverðri aukningu í flutningum lögðust félögin, í samstarfi við BCTN, saman á árarnar til að búa til hagkvæma og umhverfisvæna flutningalausn lokaspölinn frá Rotterdam til Roermond.
Með því að færa flutninginn af vegakerfinu yfir á fljót og síki er flutningsgetan meiri um leið og dregið er úr kolefnisútblæstri við hverja sendingu hjá Smurfitt Kappa um sem nemur 45 kg af CO2.
Þá geta Samskip, vegna staðsetningar þjónustumiðstöðvar BCTN, boðið öðrum viðskiptavinum sínum flutning á þyngri sendingum (allt að 26,7 tonnum) inn á svæðin í kring um Köln, Bonn og Koblenz í Þýskalandi. Fyrstu sendingarnar skiluðu sér til Roermond í byrjun desember og búist við að í viku hverri fari 60 gámar þessa leið milli Rotterdam og Roermond.
„Við hjá Smurfit Kappa Recycling erum spennt fyrir samstarfinu við Samskip og BCTN, en það gerir okkur kleift að taka stór skref í þá átt að gera flutninga eins sjálfbæra og mögulegt er,“ segir Leon Graff, framkvæmdastjóri Smurfit Kappa Recycling í Benelux-löndunum.
Esther Sliepen, yfirmaður sölu og markaðssetningar hjá BCTN, segir samstarfið í takt við það sem BCTN leggi sig fram um að gera: „Grænn og blár eru litirnir okkar og standa bæði fyrir virðingu fyrir náttúrunni og siglingaleiðir fyrirtækisins. Það gleður okkur að rótgróin fyrirtæki á borð við Smurfit Kappa og Samskip deili sýn okkar og að við getum í sameiningu náð fram þessum jákvæðu breytingum á fyrirkomulagi þessara flutninga.“
„Samskip eru áhugasöm um þetta samstarf, enda er það í anda umhverfisstefnu okkar að létta flutningum af vegakerfinu,“ segir Paul Wielaard, viðskiptastjóri Samskipa á vesturströnd Noregs.