Evrópubúar borða meira af fiski

Deila:

Samkvæmt nýlegri könnum á afstöðu evrópskra neytenda til sjávarafurða er neysla þeirra að aukast og sjálfbærni skiptir neytendur stöðugt meira máli. Niðurstöður frá fyrirtækinu Eurobarometer sýna að 42% Evrópubúa borða nú sjávarafurðir og afurðir úr eldi að minnsta kosti einu sinni í viku.

Karmenu Vella, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, segir að þessi könnum veiti upplýsingar um það hvernig Evrópubúar kjósi sjávarafurðir sínar og með það í huga geti Evrópusambandið betur markað stefnu sína. Tryggja verði að neytendur hafi aðgang að miklu úrvali hágæða sjávarafurða til að velja úr. Þess vegna er það stefna okkar að ná takmarkinu um sjálfbærar fiskveiðar fyrir árið 2020.

Könnunin sýnir einnig hvaða áhrif fjarlægð búsetu frá sjónum hefur á fiskneysluna. Flestir, eða um 80% svarenda, leggja mikla áherslu á uppruna afurðanna úr heimahéraði, úr heimalandinu eða evrópskar afurðir. Mikill meirihluti var þó tilbúinn til að reyna nýjar afurðir og tegundir, sem sýnir að fjölbreytni sé mikilvæg.

Þá kom fram mikill áhugi á því að draga úr þörf á innflutningi með því að byggja upp sjálfbærar veiðar og auka fiskeldi innan ESB og 68% svarenda sögðust myndu borða meira af fiski, væri verðið á honum lægra.

Niðurstöður könnunar Eurobarometer eru að miklu leyti staðfestar í nýrri könnun EUMOFA, markaðsstofnunar ESB fyrir sjávarafurðir og afurðir úr fiskeldi. Út úr þessari könnun sem miðaðist við smásölu og leiðir hennar til að kynna sjávarafurðir, má einnig lesa vaxandi þörf fyrir eldi sjávarafurða.

 

Deila: