Hafa fengið nóg

Deila:

Fyrr í dag lauk fjölmennum fundi sjómanna þar sem formaður Verkalýðsfélags Akraness fór yfir stöðuna í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. „Formaður fór ítarlega yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin, og fór hann yfir hvað hefur áunnist og hvað það er sem stendur útaf,“ segir á heimasíðu félagsins. Þar segir ennfremur:

„Sýndi formaður hvað þau þrjú atriði sem hafa þokast áfram í kjaraviðræðunum muni skila sjómönnum og að því loknu fór hann yfir þau atriði sem útaf standa. En eins og fram hefur komið þá hafa útgerðarmenn hafnað algerlega kröfum um breytingu á olíuviðmiðinu og bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar.

Formaður greindi frá þessari erfiðu og snúnu stöðu sem upp er komin, en ítrekaði að það væri sjómanna að taka ákvörðun um framhaldið og það fór ekkert á milli mála að sjómenn eru granítharðir á því að standa fastir á þeim tveimur atriðum sem útaf standa og var það gert með formlegri atkvæðagreiðslu þar sem allir viðstaddir greiddu því atkvæði að hvika hvergi frá þeim tveimur atriðum sem útaf standa.

Það liggur fyrir að þær 5 kröfur sem farið var af stað með eru að okkar mati sanngjarnar og réttlátar og því munu sjómenn halda sínum kröfum til streitu og eru tilbúnir til að standa og falla með þessum kröfum.

Það er mjög gott fyrir formann félagsins að vera búinn að fá skýr skilaboð frá sínum sjómönnum, enda kom fram í máli formanns að hann er í vinnu fyrir þá og vinni því ávallt samkvæmt ákvörðunum og samþykktum sjómanna sjálfra. Því eins og áður sagði er þetta lífsviðurværi þeirra sem um er að ræða, en það er morgunljóst miðað við samstöðuna á þessum fundi að sjómenn hafa fengið nóg.“

 

Deila: