Vilja auka hlutdeild sveitarfélaga í fiskeldi

Deila:

Sveitarfélög veita umsagnir um umhverfismat fiskeldis og leyfisveitingar en hafa hvorki ákvörðunarvald né skipulagsvald. Forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar segir bæinn þurfa að bregðast við auknum umsvifum fiskeldis með uppbyggingu í bænum og myndi vilja sjá að tekjur af leyfisveitingum rynnu til sveitarfélagsins. Frá þessu var greint á ruv.is

Leyfisgjöld renna ekki til sveitarfélaga 

Fiskeldisfyrirtæki greiða Umhverfis- og Matvælastofnun fyrir starfs- og rekstrarleyfi sem kostar samtals um milljón krónur. Þá greiða fyrirtækin fyrir mat á umhverfisáhrifum, sem getur hlaupið á tugum milljóna, og í Umhverfissjóð sjókvíaeldis fyrir hvert tonn sem þeim er heimilt að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi, sem getur einnig hlaupið á milljónum. Ekkert rennur þó beint til sveitarfélaga. Nanný Arna Guðmundsdóttir er forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar: „Við myndum vilja sjá að sveitarfélögin hefðu eitthvað vald til að úthluta leyfunum og að sveitarfélögin fengju einhverjar tekjur af leyfisveitingunum.“ Hún bendir á að í Noregi sem hefur margra ára reynslu af stórfelldu fiskeldi séu leyfin mjög dýr og gjöldin renna bæði til ríkis og sveitarfélags.

Vilja aukið skipulagsvald

Sveitarfélög hafa kvartað lengi yfir sinni aðkomu að skipulagi haf- og strandsvæða en skipulagsvald sveitarfélaga nær eingöngu 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli. Nanný Arna telur drög að frumvarpi um skipulag haf- og strandsvæða, sem nýlega lauk umsagnarferli sínu, vera skref í rétta átt en segir að Ísafjarðarbær, líkt og fleiri sveitarfélög, hafi áhyggjur af vægi sveitarfélaga í svæðisráðum sem eiga að sjá um skipulag strandsvæða. Þá sé það ekki skýrt hver eigi að bera kostnað af skipulaginu. Nanný Arna bindur vonir við að aukið skipulagsvald sveitarfélaga finni farveg hjá nýjum ráðherra en segir að það að láta tekjur af leyfisveitingum renna til sveitarfélaganna hafi hingað til ekki verið í umræðunni.

Bregðast við uppgangi

Nanný Arna tekur sem dæmi að ef ráðist verður í það fiskeldi sem fyrirhugað er í Ísafjarðardjúpi þá þurfi Ísafjarðarbær til dæmis að bregðast við með bættri hafnaraðstöðu. Sá kostnaður lendi að mestu leyti á sveitarfélögunum. Sveitarfélagið geti sótt um aðkomu ríkisins að framkvæmdinni en það sé ekki sjálfgefið að fá það samþykkt og það er háð fjárlögum. Nanný Arna segir að Ísafjarðarbær hafi gert ráð fyrir uppbyggingu í fjárhagsáætlun bæjarins og 5 ára fjárfestingaráætlun þótt ekki sé neitt vilyrði frá ríkinu um þeirra aðkomu. Kristján Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri hjá HG, bendir á að þegar slátrun á eldisfiski hefst greiða fyrirtæki aflagjöld af öllum lönduðum fiski til sveitarfélaganna samkvæmt gjaldskrám sveitarfélaga, sömu prósentu og af afla frystiskipa. Þá greiði fiskeldisfyrirtækin hafnargjöld af þjónustu- og brunnbátum sem og öðrum bátum sem tengjast eldisstarfseminni.

Þurfi að bregðast við húsnæðisþörf

Bb.is greindi frá því í síðustu viku að í nýrri skýrslu Reykjavík Economics, sem Ísafjarðarbær lét vinna fyrir sig, segir að ef fyrirhuguð áform og fjárfesting í fiskeldi verður að veruleika þurfi að fjölga nýbyggingum í sveitarfélaginu – bæði varanlegu húsnæði og skammtímahúsnæði fyrir farandverkafólk.

 

Deila: