Endurvigtun og  íshlutfall eru nú sýnileg við hverja löndun

Deila:

Fiskistofa hefur  gert þær endurbætur á  vef stofnunarinnar að  nú er hægt að  fletta upp upplýsingum um endurvigtun og íshluutfall (“hlutfall kælimiðils”) í hverri löndun.  Flett er upp á þessum upplýsingum  með eftirfarandi hætti:

  • Farið er í “Finna skip” og skip valið.
  • Velja “Landanir” í valmynd hægra megin á síðunni
  • Velja tiltekna löndun – Upp kemur tafla með  aflaupplýsingum.
  • Neðst í töflunni er valið “Birta endurvigtun” (ef endurvigtun hefur farið fram)
  • Upp koma þá  upplýsingar um endurvigtun og íshlutfall frá endurvigtunaraðila – einum eða fleiri

Vert að hafa í huga þegar  endurvigtun og íshlutfall eru skoðuð:

  • Vigtun sjávarafla fer þannig fram að afli er veginn á hafnarvog af löggiltum vigtarmanni við löndun.
  • Ef afli er ísaður er heimilt að endurvigta hann hjá aðila sem fengið hefur tilskilið leyfi Fiskistofu.
  • Endurvigtunarleyfi veitir heimild til að finna hlutfall kælimiðils í afla samkvæmt reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla og senda um það upplýsingar á hafnarvog sem skráir aflann í samræmi við það.
  • Við endurvigtun er ísinn skilinn frá og aflinn vigtaður án íss
  • Hlutfall kælimiðils er mismunur á brúttóvigtun afla á hafnarvog og endurvigtun afla hjá vigtunarleyfishafa.

Hafa ber í huga nokkur atriði sem geta haft áhrif á hlutfall íss í afla: 

Þegar lítið magn er vegið í einu á hafnarvog, t.d. slattakör, getur það leitt til þess að ísprósenta verði mjög afgerandi, gríðarhá eða neikvæð. Eins getur íshlutfall orðið bjagað ef fisktegundir skila sér úr endurvigtun sem ekki eru á skráðar á hafnarvoginni upphaflega. Tegund kælimiðils er mismunandi, t.d. krapi eða ísmolar, og það hefur líka áhrif á hlutföll þegar afli er veginn á hafnarvog í vökvaheldum ílátum.

Fiskistofa hyggst þróa birtingu svona upplýsinga áfram

Eins og kemur fram að ofan geta verið margvíslegar  skýringar á óvenjulegu íshlutfalli.  Fiskistofa  vinnur að því að bæta birtingu þessara upplýsinga til að forðast að upplýsingarnar misskiljist.

Ætlunin er að  þróa gagnvirkar síður þar sem hægt verður að bera saman gögn milli margra landana, skipa og endurvigtunaraðila.

Allar  ábendingar eru vel þegnar um það sem betur má fara sem og um atriði sem áhugi er á að  geta skoðað varðandi íshlutfall í afla.

 

Deila: