Slasaðist á fingri um borð í Víkingi AK
Það óhapp varð um borð í Víkingi AK síðdegis í gær að sjómaður slasaðist á fingri. Teknar voru myndir af áverkanum og að höfðu samráði við lækni var ákveðið að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir hinum slasaða.
Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra var skipið statt um 5.5 sjómílur norðvestan við Öndverðarnes á Snæfellsnesi er óhappið varð. Verið var að ljúka við kast og pokinn kominn á síðuna er ólag kom á hífinguna með þeim afleiðingum að svokallað rykkitóg vafðist um hönd eins skipverjans.
,Það var strax gert að sárinu og myndir teknar. Læknir í landi skoðaði þær og mat hans var að best væri að senda þyrlu eftir hinum slasaða.