Þrjátíu ár frá strandi Barðans GK

Deila:

Nú eru þrjátíu ár liðin frá því þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, bjargaði níu skipverjum af Barðanum GK-475 undan Hólahólum á Snæfellsnesi við sérlega erfiðar aðstæður. Þessi frækilega björgun er söguleg af mörgum ástæðum, ekki síst vegna þess að um fyrstu stóru björgun íslenskrar þyrlu var að ræða. Það er samdóma álit flestra að ekki hefði reynst unnt að bjarga áhöfn Barðans nema með aðstoð þyrlunnar. Frá þessu er sagt á heimasíðu Lanndhelgisgæslunnar.

Sagt var frá björgunarafrekinu í Morgunblaðinu (Opnast í nýjum vafraglugga) 15. mars 1987, daginn eftir að skipið strandaði. Varðskipið Óðinn, sem var á ferð um þessar slóðir, hafði að morgni laugardagsins 14. mars fengið neyðarkall frá Barða, sem þá var kominn upp í kletta norður undir Hólahólum, nærri Dritvík. Óðinn tilkynnti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um strandið og var TF-SIF send í loftið skömmu síðar. Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafði líka verið látið vita en vegna illviðris og ísingar komst þyrla þaðan ekki í loftið.

„Aðkoman var ekki glæsileg því báturinn var á hliðinni, skorðaður á milli kletta og sjóirnir gengu yfir hann og ekkert lífsmark að sjá,“ sagði Páll Halldórsson flugstjóri í viðtali við blaðið. Fjölmennt björgunarlið sem stóð á klettabrúninni gat lítið að gert vegna þess að ekki var unnt að koma línu yfir í skipið vegna sjógangs og hvernig skipið var skorðað. Þegar áhöfn þyrlunnar sá hreyfingu inni í brúnni var ákveðið að reyna hífingu. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst að bjarga skipverjunum níu um borð í þyrluna, fyrst voru sex hífðir um borð og þeir fluttir í land og svo þeir þrír sem eftir voru. Um þremur stundarfjórðungum eftir að þyrlan kom á strandstaðinn var búið að bjarga síðasta manninum.

„Þarna er að sannast að björgunarþátturinn er að verða aðalverksvið og markmið Landhelgisgæslunnar og þessi björgun sýnir að okkur er treystandi fyrir honum,“ sagði Sigurður Steinar Ketilsson stýrimaður á TF-SIF í viðtali við Morgunblaðið en hann er í dag einn af skipherrum Landhelgisgæslunnar. Auk þeirra Páls voru þeir Hermann Sigurðsson flugmaður, Guðmundur Björnsson læknir og Kristján Þ. Jónsson sigmaður í áhöfn TF-SIF þennan örlagaríka dag sem þó endaði svo giftusamlega.

Fjallað er ítarlega um strand Barðans og björgun skipverjanna í bók Óttars Sveinssonar Útkall Alfa TF-SIF, og raunar fleiri frækilegar björgunaraðgerðir þyrlusveitarinnar fyrstu árin í starfsemi hennar.

 

Deila: