Tjónið verður ekki unnið til baka

Deila:

Þorbjörn saltfiskkerfið„Ekki er hægt að búa við þær aðstæður að verkföll geti lamað sjávarútveginn í langan tíma. Þetta verkfall flokkast hreinlega undir óhappaverk, tapið verður ekki unnið til baka. Það á bæði við beint fjárhagslegt tjón allra þeirra sem verkfallið bitnaði á og tapaða markaðshlutdeild í framtíðinni,“ segir Gunnar Tómasson, annar framkvæmdastjóra Þorbjarnar hf. Í Grindavík, um stöðuna nú þegar allt er að færast nær eðlilegu horfi eftir verkfall sjómanna.

„Margir kaupendur leystu sín mál með því að semja við aðra birgja en okkur Íslendinga og eðlilega vilja þeir ekkert hætta samskiptum við þá, þó við komum aftur inn á markaðinn. Viðskiptavinirnir okkar taka við okkur á ný, en ekki í sama mæli og áður. Við erum með laskaðan trúverðugleika og náum ekki sömu viðskiptum og áður,“ segir Gunnar ennfremur og heldur áfram að lýsa stöðunni:

Gunnar Tómasson

Gunnar Tómasson

„Þetta á helst við ferska fiskinn en líka við frystar og saltaðar afurðir. Kaupendur hugsa sem svo að fyrst þetta kom fyrir nú, getur það alveg eins gerst aftur og bitnað á þeim. Í saltfiskinum er sú hefð í viðskiptunum að kaupendur eiga sjálfir sínar birgðir, kaupa fiskinn á ákveðnum tíma, verka hann síðan og dreifa á helsta neyslutímabilinu. Þetta gera þeir til að ná fram ákveðinni verkun sem passar fyrir þeirra markað. En af því að þetta gerðist núna á þessum tíma fyrir jólin og síðan páska, ganga kaupendur á sínar birgðir og nokkrir viðskiptavinir sem við þekkjum til, voru hreinlega búnir með sínar brigðir. Þeir standa þá frammi fyrir því að aðalsölutíminn um páskana er að koma og þeir eiga ekki neitt. Þeir hugsa sér þá væntanlega að lenda aldrei í þessu aftur og taka því kannski upp viðskipti við aðra birgja en okkur Íslendingana.

Niðursveifla í verði

Því er það margt sem hefur tapast. Allir markaðir hafa skaðast á einhvern hátt. Enginn þeirra hefur sloppið alveg, en ferskfiskmarkaðurinn fór verst út úr þessu. Sá markaður sem er tiltölulega nýr, hefur verið okkur mjög dýrmætur og hefur verið að borga best. Núna, þegar við erum komnir þar inn á ný, er komin niðursveifla í verðið. Að hluta til er það af markaðsástæðum þar sem Norðmenn koma inn með mikið af fiski á þessum tíma og verðið lækkar vegna mikils framboðs og að hluta til vegna þess að nýir birgar hafa komið inn í staðinn fyrir okkur. Það er að miklu leyti fiskur frá Noregi, sem hefur verið seldur óunninn til landa eins og Danmerkur og Póllands og ríkja í Austur-Evrópu. Þar er hann svo unninn og seldur inn á fiskmarkaðina í Evrópu.

Svo er það ansi erfitt að nú bitnar á okkur styrkingin á krónunni í ofanálag. Hún er líka að fara illa með okkur. Þetta allt saman gerir það að verkum að maður er svolítið eins og að byrja upp á nýtt og mikið þarf að leggja á sig til að ná sömu stöðu á ný, hvað þá að auka sóknina inn á markaðina. Núna þarf verulega að vanda sig.

Staðan í Bandríkjunum er svipuð og í Evrópu. Þeir taka stöðugt meira af fiski frá Noregi og vinna hann og selja sem „ferskar“ afurðir. Þannig hafa menn leyst stöðuna á ferskfiskmörkuðunum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu með því að kaupa heilan fisk og vinna og selja sem ferskan. Við komum svo þarna inn á ný, hægt og rólega. Það var þó einn kostur í stöðunni að um jólin og í byrjun árs voru margir hér að vinna ferskan fisk af smábátum og senda inn á markaðina og héldu leiðunum opnum að einhverju leyti.

Þegar tveir mánuðir eru teknir út úr veiðum og vinnslu er óhjákvæmilegt að framhaldið verði annað en ella. Við komum til dæmis til með að vera að vinna þorsk á tíma sem nýtingin er ekki eins góð og á öðrum tímum, það er sumarið. Gæðin verða þá heldur slakari, en við verðum samt að vinna eitthvað upp af þessum tapaða tíma í sumar. Við verðum að vinna úr þessu í ár og á næsta ári, náum því ekki á þessu kvótaári.“

Lágt verð á fiskmörkuðum

Nú hefur fiskverð á mörkuðum innan lands lækkað umtalsvert miðað við sama tíma í fyrra og Gunnar gerir ráð fyrir að sú þróun verði viðvarandi fram yfir páska. Bæði sé mikil veiði og ákveðin fyrirstaða í afurðamörkuðunum að taka við fiskinum og verð lágt í krónum vegna gengisþróunar. „Þetta hefur svona hvað áhrif á annað. Svo má benda á að stóru fyrirtækin voru ekkert á mörkuðunum í verkfallinu og hafa ekkert verið þar enn, því nú hafa þau nægar veiðiheimildir fyrir sig. Þessi fyrirtæki hafa stundum haldið uppi verðinu, en þau eru ekki að gera það nú að minnsta kosti. Það hefur líka áhrif á markaðsverðið.“

Nú er krónan í hæstu hæðum, svipuð að styrkleika og fyrir hrun 2008, og dregur verulega úr tekjum, útgerðar, sjómanna og fiskframleiðenda. Gunnar segist ekki sjá annað framundan en að krónan verði áfram sterk og að þá verði einhverir orðnir haltir þegar líða fer á sumarið. Þetta taki alveg svakalega í.

Þetta umhverfi allt dregur svo úr heildartekjum útgerðar og fiskvinnslu og hefur áhrif á  getuna til að greiða veiðigjöld, sem eru reiknuð út frá afkomu. Í þeim útreikningi er miðað við tveggja ára gamlar tölur, þannig að í ár verður borgað í samræmi við afkomuna 2015. Gunnar segir það mikið óhagræði og við ákvörðun veiðigjalda verði menn taka tillit til þess að setja ekki allt í stóra stopp. Greinin verði að hafa eitthvað aflögu til endurnýjunar, uppbyggingar og þróunar. Sum árin sé afkoman góð og þá geti sjávarútvegurinn skilað meiru til samfélagsins, en því miður minna þegar illa árar.

Þorbjörn saltflök

Alls staðar góð veiði

„Eftir lok verkfallsins var staðan sú að línuskipin voru farin að sækja á miðin suðvestanlands og vinnslan hefur gengið á hefðbundinn hátt. Við höfum aðallega verið að salta en líka verið að vinna í ferskt. Ferskfiskvinnslan hefur eðlilega dregist saman og því aukum við söltunina á móti. Við vonumst að það þetta verði komið í meira jafnvægi þegar kemur fram á vorið.

Frystitogararnir byrjuðu af krafti í þorski til að fylla á pípurnar og síðan fara þeir í annað. Gnúpur fer í Barentshafið í þorskinn þar og svo fer Hrafn Sveinabjarnarson í karfa, ufsa og grálúðu til að vinna á kvótanum sem eftir er. Við eigum auðvitað eftir mikinn kvóta vegna þessa langa stopps en kosturinn er að það fiskast mjög vel. Menn þurfa jafnvel að halda aftur af sér til að ofgera ekki vinnslunni. Vinnslugetan um borð í frystitogurunum er takmörkuð og sníða verður veiðina að henni til að fara sem best með hráefnið. Það er svipað á línunni. Fækka verður rekkum svo mannskapurinn á millidekkinu hafi undan við að taka á móti fiskinum. Ekki má kasta til hendinni, þó fiskirí sé mikið. Við kærum okkur ekkert um að vera með þriðja flokks fisk.

Aukinn áhugi í Portúgal

Núna heyrir maður að í Portúgal sé nú meiri áhuga á kaupum á saltfiski frá Íslandi en undanfarin ár. Það eru þá aukin tækifæri fyrir okkur og vonandi að við getum þá hugað betur að þeim markaði, sem byggist á hefðbundinni saltfiskvinnslu. Það er gott að það kemur inn á sama tíma og við eigum í svolitlum erfiðleikum í ferska fiskinum. Það eru kostir og við verðum líka að sinna þessum mörkuðum eins og við getum. Þeir eru okkur mikilvægir og nú kemur á land ekta vertíðarfiskur, sem hentar vel í saltið.

Þorbjörn saltfiskurVonast eftir auknum kvóta

Meðalþyngdin á fiskinum fer nú hækkandi og það er alveg sama hvar menn eru, alls staðar er sama góða fiskiríið. Nú er Hafró í togararallinu og netarall framundan. Vonandi koma þær mælingar vel út og ástæða verði til að bæta við kvótann á næsta fiskveiðiár. Manni finnst miðað við sífellt stækkandi hrygningarstofn og veiðistofn að kvóti hafi aukist lítið í samræmi við það. Þeir hafa kannski nokkuð góð rök fyrir tillögum sínum, en ekki má gleyma því að nýtingarstuðullinn er kominn niður í 20% af veiðistofni, sem er í raun og veru alltof lágt. Það var farið með hann svona neðarlega vegna þess að menn voru alltaf í einhverjum pólitískum ráðstöfunum að taka meira en nýtingarstuðullinn gaf tilefni til. Nú falla ákvarðanir undir nýtingarstuðulinn og hafa gert árum saman. Þar með mætti lyfta honum aðeins. Það eru margar þjóðir með mun hærri nýtingarstuðul en þetta. Svo lengi sem menn halda sig innan varúðarmarka við veiðarnar er það í góðu lagi.“

Gunnar segir að markaðir fyrir aukaafurðir eins og þurrkað hausa séu enn erfiðir. Menn haldi sig við hefðbundna markaði. Þó verð sé lágt í Nígeríu séu þeir samt að kaupa. Markaðurinn sé þar enn, en greiðslugetan sé ekki sú sama og var. Það sé því ekkert að safnast upp í því. Þá sé aukin eftirspurn Kína eftir hryggjum og dálkum og aukin eftirspurn eftir sundmögum. Einnig sé fín eftirspurn eftir öðrum aukaafurðum eins og gellum og þunnildum og flakabitum. Kínverjarnir séu býsna margir og þar sé óplægður akur.
Viðtlaið birstist fyrst í Sóknarfærum. Myndir og texti: Hjörtur Gíslason

Deila: