Sirrý aflahæst í Bolungarvík í fyrra
Skuttogarinn Sirrý ÍS 36 var aflahæsta skipið sem landaði í Bolungarvíkurhöfn á síðasta ári. Afli skipsins var rúmlega 3.700 tonn. Jakob Valgeir ehf. gerir Sirrý út og var togarinn keyptur í fyrra. Hafa ber í hug að Sirrý hóf ekki veiðar fyrr en í lok febrúar þannig að aflinn náðist á 10 mánuðum. Fréttvefurinn vikari.is greinir frá að dragnótarbáturinn Ásdís ÍS-2 landaði næstmest í Bolungarvík, eða rúmlega 1.900 tonnum en þar á eftir komu línubátarnir Fríða Dagmar ÍS-103 með 1.743 tonn og Jónína Brynja ÍS-55 með 1.731 tonn. Þá var dragnótarbáturinn Finnbjörn ÍS-68 með 1.512 tonna afla á síðasta ári.
Aðrir bátar sem náðu yfir 1.000 tonna afla árið 2016 voru línubátarnir Einar Hálfdáns ÍS-11 með 1.156 tonn, Otur II ÍS-173 með 1.079 tonn og Guðmundur Einarsson ÍS-155 með 1.027.
Samtals voru þessi 8 skip með tæplega 14.000 tonna afla eða rúmlega 70% af öllum lönduðum afla í Bolungarvík árið 2016 en heildaraflinn var rúmlega 19.000 tonn.
Frétt og mynd fengin af bb.is