Ný Ásdís komin heim

Deila:

Á föstudaginn kom Ásdís ÍS til heimahafnar í Bolungarvík. Ásdís er glæsilegur dragnótarbátur í sem útgerðarfélagið Mýrarholt ehf. festi kaup á fyrr í vetur. Báturinn kemur í stað minni dragnótarbáts með sama nafni sem Mýrarholt hefur gert út í þrjú ár með eftirtektarverðum árangri.

Gamla Ásdísin fiskaði heil 1.900 tonn á síðasta ári og var aflahæst dragnótarbáta á landinu. Þá hefur Ásdís einnig verið á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi og svo verður einnig um nýja bátinn.

Nýja Ásdísin er smíðuð í Póllandi árið 1999 og er hönnuð og sérútbúin til dragnótarveiða og hét áður Örn GK. Hún er mun stærri en fyrirrennari hennar og munar mestu um að báturinn er átta metra breiður, þremur metrum breiðari en gamla Ásdísin. Mýrarholt er í eigu bræðranna Guðmundar og Jóns Þorgeirs Einarssona og fjölskyldna þeirra. Skipstjóri á Ásdísi er Einar Guðmundsson.

Mynd og texti af bb.is Á myndinni eru útgerðarmennirnir Jón Þorgeir (t.v.) og Guðmundur Einarssynir við bátinn.

 

Deila: