Eftirlit með vigtun fiskafla verði hert

Deila:

Eftirlit með löndun og vigtun sjávarafla verður aukið og viðurlög við brotum á lögum lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um Fiskistofu verða hert samkvæmt frumvarpi sem sjávarútvegsráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur lagt fram á Alþingi. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það styrkja heimildir Fiskistofu til eftirlits með vigtunarleyfishöfum og auka þannig varnaðaráhrif laganna.

Efni frumvarpsins varðar eftirlit með vigtunarleyfishöfum. Eftirlitið er vandkvæðum bundið þar sem vigtun fer fram á starfsstöð þeirra og ekki er mögulegt, m.a. vegna kostnaðar, að hafa fullnægjandi eftirlit með endurvigtun. Í frumvarpinu er lagt til að Fiskistofa skuli auka eftirlit sitt hjá vigtunarleyfishafa ef í ljós kemur við eftirlit að verulegt frávik er á íshlutfalli í afla skips í viðkomandi fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skipsins í fyrri löndunum.

„Vigtunarleyfishafinn greiði þann kostnað sem hlýst af auknu eftirliti og ætti það að hafa varnaðaráhrif og auka vandvirkni við vigtun og skráningu sjávarafla. Hið aukna eftirlit felst í að Fiskistofa geti notað upplýsingar um fyrri landanir sem skráðar eru þegar opinbert eftirlit er ekki við haft. Er þetta nýmæli og verður að teljast mikilvægt skref í að auka traust á endurvigtun.
Ef ítrekað kemur í ljós verulegt frávik á íshlutfalli í afla skips í tiltekinni fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skips í fyrri löndunum skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfið í allt að eitt ár. Afturköllun á vigtunarleyfi er eðlileg aðgerð í ljósi þess trausts sem stjórnvöld veita vigtunarleyfishöfum og mikilvægis réttrar aflaskráningar.
Þá er lagt til að bætt verði við lið í gjaldskrárheimild Fiskistofu í 5. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992, sbr. 1. gr. laga nr. 67/2015, sem heimilar að innheimta gjald vegna yfirstöðu eftirlitsmanna Fiskistofu í samræmi við efni frumvarpsins,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Deila: