Skaginn 3X selur verksmiðju í hollenskt skip

Deila:

Skaginn 3X hefur komist að samkomulagi um smíði á uppsjávarverksmiðju um borð í hollenskt verksmiðjuskip. Um er að frekari þróun á þeim búnaði og tækni sem fyrirtækið hefur þróað og selt til nokkurra staða í landvinnslur á undanförnum árum, síðast til Eskju á Eskifirði en sú verksmiðja var tekin í notkun síðla síðasta árs.

Fyrr í þessum mánuði var gengið frá samningi milli útgerðarfyrirtækisins France Pelagique og norsku skipasmíðastöðvarinnar Havyard um smíði fullkomins uppsjávarverksmiðjuskips til frystingar. Skipið er 80 metrar að lengd og tæpir 18 metrar að lengd. Gert er ráð fyrir að smíði skipsins ljúki í árslok 2018. Havyard og Skaginn 3X hafa nú komist að samkomulagi um að verksmiðjubúnaður skipsins verði hannaður og settur upp af af Skaginn 3X. Verksmiðjan verður búin allri þeirri tækni sem þróuð hefur verið á undanförnum árum m.a. í verksmiðjum í Færeyjum og Íslandi síðast hjá Eskju á Eskifirði.

Jón Birgir Gunnarsson, markaðs- og sölustjóri Skaginn 3X, segir að verksmiðjuna vera mjög tæknivædda allt frá því að fiskur kemur úr veiðarfærum skipsins þar til fullfrosin afurð verður komin á vörubretti í frystilest skipsins. Meðal annars verði notast við myndgreiningartækni sem greinir hvern einasta fisk eftir tegund, stærð og gæðum og gefur möguleika á rekjanleika í gegnum allt vinnsluferlið. Hjartað í þessu afkastamikla vinnslukerfi eru sjálfvirkir plötufrystar sem þróaðir hafa verið á síðustu árum.

„Uppsjávarverksmiðjur Skagans 3X eru mjög tæknivæddar. Sjálfvirkni þeirra hefur einnig tryggt mikil afköst sem nauðsynleg eru við vinnslu uppsjávarfisks án þess að það komi niður á gæðum afurða. Þetta samkomulag er því afar mikil viðurkenning á okkar lausnum og verðugt verkefni að koma þessari tækni fyrir í fyrsta sinn í veiðiskipi. Það er mikil áskorun sem gaman verður að takast á við,“ segir Jón Birgir.

 

Deila: