Á rúllunni á Kirkjuhrauni

Deila:

„Heyrðu. Ég er hérna á rúllunni á Kirkjuhrauni út af Herdísarvíkinni. Það er búið að vera ágætis rjátl bara. Annars hefur þetta verið voðalega gloppótt hérna eftir stoppið. Einn báturinn er að reka í hann og aðrir að fá lítið. Auður var til dæmis að fá 15 tonn hérna rétt hjá okkur um daginn, en við vorum með mun minna. Hann er hérna þorskurinn, en er bara ekki byrjaður að taka ennþá. Það er mokveiði í öll önnur veiðarfæri. Hann er ekki byrjaður að taka línuna enn, hann er bara enn að hrygna. Ekki alveg tilbúinn fyrir okkur ennþá,“ sagði Haraldur Björn Björnsson, skipstjóri á Gísla Súrssyni, þegar slegið var á þráðinn til hans úti á sjó í síðustu viku. Rætt er við hann í nýjasta tölublaði Ægis.

20170426_173333

Þegar Haraldur kom með bátinn inn til löndunar síðar um daginn var annað hljóð í honum. „Við erum með tíu til ellefu tonn. Þetta er allt að koma.“

Bera um 18 tonn í körum

Gísli Súrsson er gerður út af Einhamri í Grindavík eins og „eiginkona hans“ Auður Vésteins. Bátarnir hafa verið að fiska mjög vel. Gísli var með tæp 1.900 tonn í fyrra og Auður rétt rúm 1.900. Þetta eru smábátar af stærstu gerð, 29 tonn og 14,9 metrar að lengd og bera um 18 tonn í körum. Þeir voru afhentir árið 2014 og eru því á þriðja árinu núna.

„Þetta skeði líka í fyrra. Þá byrjaði veiðin ekki fyrr en bara um 25. -26. apríl. Veiðin var líka farin að minnka fyrir stoppið var í svona 5 til 8 tonnum í stoppinu, en þá fórum við bara utar. Það er styst 25 mílur héðan í suðvestur út fyrir hrygningarhólfið. Nú fer þetta að bresta á, held ég,“ sagði Haraldur þegar við snérum okkur aftur að veiðunum.

Hann segir annars að þetta gangi bara vel og hann kvarti ekki. Þeir mokveiddu fyrr í vetur þegar þeir réru frá Stöðvarfirði. „Það var mok í janúar og febrúar fyrir austan. Þá var mokveiði við Hvítingana alltaf fullur bátur.“

14 mílna löng lína

Þeir eru með um 20.000 króna og er línan tæpar 14 mílur. Um tvo og hálfan tíma tekur að leggja og átta til níu tíma að draga ef allt gengur vel. Aflanum er landað hjá Einhamri sem gerir bátana út og fer nánast allt utan ferskt með flugi, þorskur og ýsa en það litla sem er af öðru fer á markað. „Fiskurinn hefur verið mjög vænn í vetur, ef vandamálið er eitthvað, er það að hann er of stór. Mér finnst aflinn alltaf vera að aukast ár frá ári, hvort það vegna þess við séum að verða betri að veiða eða meira sé af fiskinum er ég ekki viss um. Ástandið er allavega ekki að versna, ef eitthvað er, þá er það að lagast,“ segir Haraldur.

Hann segir að þetta sé hörku bátar, sérstaklega eftir að gírókúlan var sett í þá. Þetta er 700 kílóa stykki sem snýst fleiri þúsund snúninga á mínútu og stabíliserar bátinn virkileg vel.„Þá fundum við alveg svakalegan mun. Það hvarf helmingurinn af veltingnum, en áður fann maður ansi mikið fyrir honum þangað til um tíu tonn voru komin í bátinn. Þetta eru burðarmiklir og góðir bátar og fara núna mjög vel með mann,“ sagði Haraldur.

Deila: