Frístundaveiðileyfi þarf á sjóstöng

Deila:

Fiskistofa vekur athygli á að ferðaþjónustufyrirtæki sem hyggjast bjóða upp á sjóstöng verða að hafa frístundaveiðileyfi fyrir hvern bát sem nota á í því skyni samkvæmt reglugerð um leyfisskyldar frístundaveiðar. Meginskilyrði fyrir veiðileyfinu er leyfi frá ferðamálastofu, haffærisskírteini og skrásetning báts hjá Samgöngustofu.

Frístundaveiðar er einungis heimilt að stunda með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar.

Ferðaþjónustufyrirtæki geta sótt um tvær tegundir frístundaveiðileyfa.

  1. Leyfi til að veiða tiltekinn fjölda fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Um borð í báti sem tekur færri en 20 farþega er heimilt að hafa allt að 7 sjóstangir eða handfæri samtímis enda fari heildarafli fiska af kvótabundnum fisktegundum ekki yfir 49 fiska dag hvern. Um borð í báti sem tekur farþega á bilinu 20-49 er heimilt að hafa allt að 15 sjóstangir eða handfæri samtímis enda fari heildarfjöldi fiska af kvótabundnum fisktegundum ekki yfir 60 fiska dag hvern. Þá er heimilt að hafa um borð í báti sem tekur 50 farþega eða fleiri allt að 25 sjóstangir eða handfæri samtímis enda fari heildarfjöldi fiska af kvótabundnum fisktegundum ekki yfir 75 fiska dag hvern. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar samkvæmt leyfi þessu.
  2. Leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts. Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávar­afla. Um afla þessara báta gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Ekki skal leitað staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs vegna flutnings aflamarks til þessara báta. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt þann afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.

Athugið að veiðar skv. leyfi í fyrsta tölulið krefjast sérstakrar skráningar í aflaskýrslu skv. 4. gr. reglugerðarinnar. Skila skal aflaskýrslu mánaðarlega til Fiskistofu.

Sækja þarf um frístundaveiðileyfi í gegnum Ugga upplýsingagátt Fiskistofu . Gjald fyrir frístundaveiðileyfi er 22.000 kr.

 

Deila: