Sex mýtur um sjávarútveg

Deila:

Dr. Ásgeir Jónsson dósent og deildarforseti hagfræðideildar við Háskóla Íslands fór yfir þéttihringina þrjá í íslenskum sjávarútvegi, upptöku aflamarkskerfi, frjálsa fiskmarkaði og frjálst framsal aflakvóta á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Erindinu hafa nú verið gerð skil á heimasíðu SFS. Með þessum veigamikilum þáttum hefur heppnast að umbylta virðissköpun í íslenskum sjávarútvegi og skapa gríðarleg verðmæti. Hann benti þó á að fortíðin lifir enn í almennri umræðu og tók sex mýtur því til stuðnings.

Mýta 1. „Ekki er annað hægt en að græða á sjávarútvegi“

Hagnaður er algerlega háður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, frjálsu framsali aflaheimilda og frjálsri ráðstöfun aflans. Máli sínu til stuðnings benti hann á að enginn gróði fór að sjást fyrrr en á 21. öldunni.

Mýta 2. „Sjávarútvegur er lágtækni frumframleiðslugrein með sífellt minnkandi vægi í íslensku hagkerfi“

Sjávarútvegur er helsti brimbrjótur tækniframfara og nýsköpunar í íslensku hagkerfi. Greinin hefur verið uppspretta ýmissa tækninýjunga og margir hliðarsprotar vaxið frá henni. Eftir því sem hefðbundnum störfum í veiðum og vinnslu hefur fækkað hefur hliðarstörfum fjölgað. Mannaflaþörf greinarinnar hefur verið að breytast og hún hefur í auknum mæli orðið vettvangur fyrir menntað fólk.

Mýta 3. „Sjávarútvegur eru óstöðug grein sem skapar þjóðhagslega áhættu“

Staðreyndin er sú að síðasta aldarfjórðung hefur sjávarútvegur verið aflvaki stöðugleika í íslensku hagkerfi. Greinin hefur veitt mikilvægan bakstuðning í síðustu tveim niðursveiflum þegar landsmenn hafa verið að prófa sig áfram með nýjar atvinnugreinar. Í næstu niðursveiflu mun það koma í ljós.

Mýta 4. „Sjávarútvegur er háður íslensku krónunni og vælir út gengisfellingar“

Gengi krónunnar hefur hreyfst óháð sjávarútvegi frá síðustu gengisfellingunni árið 1993. Sjávarútvegur er vel í stakk búinn til þess að takast á við gengissveiflur vegna hlutaskiptakerfisins og öflugs alþjóðlegs markaðsstarfs. Útgerðin hagnast af lágu gengi en útgerðarmenn bíða ekki lengur eftir gengisfellingum til þess að laga reksturinn – þeir hagræða.

Mýta 5  „Samþjöppun í sjávarútvegi má alfarið rekja til kvótakerfisins og hefur komið landsbyggðinni á kaldan klaka“

Frjálst framsal aflaheimilda, frjálsir fiskmarkaðir og malbikaðir vegir hafa gert landið að einu markaðssvæði fyrir fisk. Það er áfall fyrir einstakar byggðir að missa frá sér aflaheimildir en samkeppnishæfur sjávarútvegur er þó forsenda fyrir samkeppnishæfum lífskjörum úti á landi. Einu hálaunastörfin á landsbyggðinni eru einmitt í sjávarútvegi.

Mýta 6 „Hægt er að fjármagna heilbrigðiskerfið og jafnvel menntakerfið með hærra auðlindagjaldi“

Sjávarútvegur greiðir rúma 20 milljarða til ríkisins á ári sem auðlindagjald, tekjuskatt og tryggingargjald. Hvað sem fólki finnst um auðlindagjald er ljóst að það leysir ekki úr fjárvanda heilbrigðiskerfisins.  Sá vandi verður ekki leystur nema með nýrri stefnumótun.

Erindi Ásgeirs má nálgast hér: Sex mýtur um sjávarútveginn.pdf

 

Deila: