Er að útskrifast sem sjávarútvegsfræðingur
Maður vikunnar hjá okkur á kvotinn.is að þessu sinni er Vopnfirðingurinn Fanney Björk Friðriksdóttir. Hún er verkstjóri hjá HB Granda á staðnum og er að útskrifast sem sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri 10. júní. Fyrsta árið tók hún á Akureyri en seinni tvö árin í námi tók hún í fjarnámi samhliða störfum sínum hjá HB Granda á Vopnafirði.
Nafn:
Fanney Björk Friðriksdóttir
Hvaðan ertu:
Vopnafirði. Ég er fædd árið 1993 og hef alla mína tíð búið á Vopnafirði fyrir utan þegar ég var í menntaskóla og háskóla á Akureyri.
Fjölskylduhagir:
Í sambúð með Víglundi Páli Einarssyni
Hvar starfar þú núna:
Verkstjóri hjá HB Granda á Vopnafirði
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg:
Ég byrjaði að vinna hjá HB Granda í sumarvinnu 2012 en hef verið fastráðin síðan sumarið 2015.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg:
Fjölbreytt og spennandi. Landslagið er mjög breytilegt og oft þarf að bregðast hratt við. Það gerir starfið skemmtilegt og krefjandi.
En það erfiðasta:
Óvissan við uppsjávarvinnsluna getur líka verið erfið, en annars fátt sem mér dettur í hug.
Hvað er það skrítnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum:
Á tímabili var ákveðin athöfn þegar sumarstarfsfólk hætti störfum eftir sumarið. Eitt sumarið var ég smúluð með ísköldu vatni síðasta daginn, einhverjir lentu í krapakörum. Síðan hefur verið aðeins um það að menn séu að mana aðra í einhverja vitleysu eins og að éta innyfli eða drekka blóðvatn – bæði skemmtilegt og skrítið.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn:
Þær vertíðar sem ég hef unnið hjá HB Granda á Vopnafirði hef ég verið svo heppin að vera alltaf að vinna með fullt af vinum mínum. Það er yfirleitt mjög góður mórall í vinnunni og allir vinir. Inn á milli koma einnig sérstakir karakterar sem setja svip sinn á vertíðina – mjög erfitt að nefna einhvern einn.
Hver eru áhugamál þín:
Mér finnst rosalega gaman að ferðast, bæði um Ísland og erlendis, og gera allt eða ekki neitt. Fyrir tæpum tveimur árum síðan fór ég líka að spila blak, og mér finnst það rosalega skemmtilegt og gaman að vera í góðum félagsskap.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn:
Ég er agalegur sælkeri og finnst gott að borða góðan mat. Held að ég verði að segja að uppáhaldsmaturinn minn sé humar, og lambakjöt með bernaise sósu.