550 tonna kolmunnahol í Rósagarðinum

Deila:

Í fyrradag var hörkuveiði hjá kolmunnaskipunum í Rósagarðinum 65 mílur suðaustur af landinu. Beitir NK tók tvö hol þennan dag og fékk 550 tonn í öðru og 500 tonn í hinu. Bjarni Ólafsson AK fékk einnig góðan afla og fiskurinn þarna er „ofboðslega fallegur og stór“ að sögn Runólfs Runólfssonar skipstjóra. Bjarni landaði 1.300 tonnum á Seyðisfirði í gær.

Beitir er að landa 1.900 tonnum í Neskaupstað í dag og þar af fengust 1.700 tonn í Rósagarðinum. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að veiðin hafi verið mjög góð í fyrradag en lítil í gær. „Það er mikil hreyfing á fiskinum þarna og veiðin er dálítið köflótt. Í fyrradag sást töluvert af fiski en minna í gær. Við fengum tvö yfir 500 tonna hol í fyrradag og það er ágætt. Vonandi verður áframhald á þessu,“ sagði Sturla í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gert er ráð fyrir að kolmunnaskipin haldi á ný til veiða í Rósagarðinum eftir sjómannadagshelgina.
Á myndinni er Beitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: