Ætlar að skoða heiminn frá öðrum sjónarhornum
„Mér fannst nú bara nóg komið. Ég er kominn á aldur og ætla núna að fara að skoða heiminn frá öðrum sjónarhornum,“ segir Guðjón Einarsson sem er nú að hætta sem ritstjóri Fiskifrétta eftir 32 ár í starfi. Þetta segir hann í samtali við mbl.is
Guðjón var fréttamaður á sjónvarpinu frá 1970 til 1985 en þá ákvað hann að söðla um og fara yfir á Fiskifréttir. Hann segir að gríðarlegar breytingar hafi orðið í sjávarútveginum á síðustu 32 árum. „Ég kem þarna inn rétt eftir að kvótakerfið tekur gildi og ég er búinn að fylgja því síðan og þeim breytingum sem það hefur valdið. Ég hef alltaf haft nóg að skrifa um,“ segir Guðjón.
Þá segir hann hafa orðið breytingar á fjölmiðlamarkaðinum sömuleiðis en að Fiskifréttir hafi alltaf lifað. „Það voru miklar hremmingar sérstaklega í kringum hrunið en það var áfram pláss fyrir blaðið.“
Guðjón segir framtíðina hjá Fiskifréttum bjarta en þrír starfa á ritstjórninni. Á sama tíma og Guðjón hættir mun Kjartan Stefánsson sem hefur verið ritstjórnarfulltrúi blaðsins hætta eftir 16 ára starf. Svavar Hávarðsson er nýr ritstjóri Fiskifrétta en hann hefur verið blaðamaður á Fréttablaðinu síðasta áratuginn. Þá starfar á blaðinu Guðjón Guðmundsson og um mitt sumar tekur til starfa Guðsteinn Bjarnason sem kemur af Fréttablaðinu.
Guðjón segist ganga sáttur frá borði eftir þennan langa tíma hjá Fiskifréttum. „Það er búið að vera mjög skemmtilegt og fjölbreytt að skrifa um þessa grein. Það eru ótal vinklar á þessu og aldrei verið skortur á umfjöllunarefni.“