Gekk vel á úthafskarfanum

Deila:

Frystitogarinn Þerney RE kom til hafnar rétt fyrir helgina beint af grálúðumiðunum djúpt vestur af Vestfjörðum. Veiðiferðin var tvískipt að þessu sinni. Byrjað var á úthafskarfaveiðum og síðan lá leiðin á grálúðumiðin.

,,Við máttum byrja að veiða úthafskarfa þann 10. júní sl. og við fórum fljótlega á miðin eftir það. Veiðin var frekar léleg til að byrja með en svo glæddist hún og það var mokveiði þegar við lukum við að veiða kvótann. Aflanum var landað í Reykjavík 31. maí sl. en síðan fórum við norður á Vestfjarðamið,“ segir Kristinn Gestsson skipstjóri í samtali á heimasíð HB Granda.

Seinni helmingur veiðiferðarinnar fyrir vestan hófst í leiðinda brælu á Látragrunni en þar fékkst góður ýsuafli.

,,Það var vitlaust veður en við stöldruðum við í hálfan annan sólarhring og fengum mjög góðan afla í sólarhring eða svo en síðan var stefnt á grálúðumiðin. Við fórum til veiða djúpt vestur af Halanum en þar fæst oft góður grálúðuafli við miðlínuna á milli Íslands og Grænlands á þessum árstíma. Aflinn hjá okkur var upp og ofan en heilt yfir gengu veiðarnar vel,“ segir Kristinn en stöðugt erfiðara hefur reynst að veiða grálúðu hér við land hin síðari ár.

,,Grálúðan stendur djúpt eða á þetta 350 til 600 faðma dýpi og menn tala um það núna að veiðarnar sleppi fyrir horn ef aflinn fer ekki niður fyrir 300 kg á togtímann. Það er auðvitað engin afkoma hjá áhöfn eða útgerð á slíkum veiðum og tonn á togtímann, sem eitt sinn þótti í slakari kantinum, þykir nú vera mokveiði. Það má vera að grálúðuverðið hafi hækkað en það dugar engan veginn til að dekka það tap sem gengisþróunin hefur ollið,“ segir Kristinn Gestsson en hann og áhöfn nutu sjómannadagshelgarinnar með fjölskyldum sínum og vinum áður en alvara lífsins tekur við að nýju.
 

 

 

Deila: