Hvaða rugl er þetta!

Deila:

Verð á fiski upp úr sjó á fiskmörkuðum hefur verið sögulega lágt í sumar. Fjallað er um þessa þróun á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda og spjallað trillukarlinn Eðvald Smára Ragnarsson:

Hvaða rugl er þetta! Var það sem fór í gegnum huga Eðvalds Smára Ragnarssonar á Djúpavogi þegar hann var á leiðinni niður á bryggju kl þrjú að nóttu til að fara í strandveiðiróður á bát sínum Orra SU.  Já hvaða rugl er þetta að þvæla sér út á sjó um hánóttu til að ná að selja á markaðinum úrvals þorsk.  Blóðgaður, lagður í ískrapa og hitamældur.  Ruglið felst í afrakstri róðursins, fékk 146 krónur fyrir hvert kíló.  Þennan dag í fyrra var verðið 270 krónur, sagði Eðvald Smári.

Aðspurður sagðist Eðvald vera sár og svektur yfir verðinu.  Það væri ábyrgðarhluti að selja þorsk á erlendan markað á svo lágu verði, að ekki sé hægt að greiða meira til sjómannsins en 146 krónur.

Það er ekki einkamál fiskkaupenda ef þeir væru að miðla þjóðargullinu inn á dýrustu markaði heims með þessum hætti.   Allir sem kæmu að ferlinu ættu rétt á að fá sanngjarna greiðslu fyrir sína vinnu.

Það eru gríðarleg vonbrigði hversu fiskverð er lágt um þessar mundir.  Meðalverð á mörkuðum fyrir óslægðan þorsk tímabilið maí – júní var aðeins 203 krónur, sem er 64 krónum lægra en það var í sömu mánuðum í fyrra.   Öll plön um þokkalega afkomu af veiðunum hafa því fokið út í veður og vind.  Hver þróunin verður á seinni helmingi strandveiðitímabilsins skal ósagt látið.

Deila: