Nýr framkvæmdastjóri Norðanfisks

Deila:

Norðanfiskur sérhæfir sig í fullvinnslu sjávarafurða í stóreldhús- og neytendapakkningar og er í eigu HB Granda hf. Pétur Þorleifsson framkvæmdarstjóri Norðanfisks ehf. síðastliðin 12 ár hefur sagt upp störfum og hyggst finna sér nýjan starfsvettvang.

Sigurjón Gísli

Sigurjón Gísli Jónsson tekur við starfi framkvæmdastjóra og mun hann hefja störf í byrjun ágúst 2017.  Sigurjón er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur undanfarið starfað sem framkvæmdarstjóri hjá verslunarkeðjunni Morrisons í Bretlandi.  Áður var Sigurjón sölustjóri og síðar framkvæmdarstjóri alþjóðlegs söluteymis hjá Marel hf. En þar áður var hann framleiðslustjóri hjá Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum.

Auk Sigurjóns hefur Þröstur Reynisson sem nú er vinnslustjóri bolfiskvinnslu HB Granda á Akranesi verið ráðinn til Norðanfisks og mun vinna að sölu og markaðsmálum. Þröstur sem hefur unnið í tæp 21 ár hjá HB Granda og forverum félagsins á Akranesi mun einnig sinna vöruþróun.

Sigurjón mun leiða frekari uppbyggingu fullvinnslu sjávarafurða HB Granda á Akranesi ásamt Eiríki Vignissyni framkvæmdastjóra Vignis G. Jónssonar.

Norðanfiskur og HB Grandi þakka Pétri fyrir vel unnin störf og óska honum alls hins besta auk þess sem Sigurjón og Þröstur eru boðnir velkomnir til nýrra starfa.

 

Deila: