Hvers vegna þagði sjómannaforystan?

Deila:

Í framhaldi af viðtali við framkvæmdastjóra Sjómannasambandsins í fréttum Stöðvar 2 í vilja Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda koma eftirfarandi á framfæri:

„Mjög varhugavert er að rugla saman annars vegar skiptaverði verðlagsstofu og hins vegar markaðsverði á fiski á mörkuðum. Markaðsverð getur sveiflast mikið, ekki síst þegar framboð á mörkuðum er ótraust. Þegar saman fer mikil eftirspurn eftir ferskri vöru og lítið framboð á mörkuðum getur markaðsverð risið úr hófi þó að það endurspeglist ekki í skiptaverði verðlagsstofu, sem notað er við skiptahlut sjómanna sem starfa hjá lóðrétt samþættum útgerðarvinnslum.

Sjálfstæðir framleiðendur hafa saknað samstöðu frá forystu sjómanna, þegar bent var á að sú ákvörðun ráðherra að heimila hliðrun á 30 prósent aflaheimilda  yfir á næsta fiskveiðiár myndi hafa alvarlegar afleiðingar á fiskmörkuðum. Fyrirsjáanlegt var að hliðrunin myndi skerða mjög kjör sjómanna stærri útgerðarfyrirtækja á þessu ári en samt heyrðist ekkert frá sjómannaforystunni þá. Þegar horft er til mjög sterkrar krónu og þess að verðlagsstofuverð er jafnan mun lægra en fiskmarkaðsverð dylst engum að skert kjör sjómanna, sem starfa hjá stórum lóðrétt samþættum útgerðum, sem landa á verðlagsstofuverði til eigin vinnslu, voru fyrirsjáanleg.

Mikilvægt er að tryggja meira og stöðugra framboð af fiski inn á fiskmarkaði. Þannig næst meiri stöðugleiki á markaðsverð, sem ásamt tryggu framboði eykur afhendingaröryggi sjálfstæðra framleiðenda gegnvart erlendum kaupendum. Þetta byggir undir trausta og stöðuga verðmyndun á erlendum mörkuðum, sem aftur dregur úr sveiflum í markaðsverði hérlendis enda er verð á erlendum mörkuðum lykil áhrifabreyta varðandi verð hér á landi.

Um langt árabil hefur íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið stuðlað að því að stór, lóðrétt samþætt, sjávarútvegsfyrirtæki gera upp afla til eigin vinnslu á lágmarksverði og geta síðan sótt inn á kauphlið fiskmarkaða og sótt sér viðbótarhráefni á mun hærra verði en þeir nota í uppgjöri við sína sjómenn. Þessu verður að breyta.

Standi vilji ráðherra til að skapa eðlilegt og hvetjandi samkeppnisumhverfi í íslenskum sjávarútvegi til að hámarka afrakstur þjóðarbúsins af undirstöðugrein íslensks atvinnulífs er nauðsynlegt að ráða bót á þessu máli.“

 

Deila: