Keila með Camembert

Deila:

Keila er fiskur sem hefur orðið undir í samkeppninni við þorskinn og ýsuna um hylli íslenskra fiskneytenda. Það er nokkuð merkilegt, því keilan er flottur matur og auðvelt að nálgast hana í fiskbúðum. Við fundum þessa uppskrift á doktor.is en þar segir svo:

„Keila er afar góður fiskur – sá besti sem ég nota en fæða keilunnar er helst krabbadýr og annar smáfiskur. Þetta er afar vanmetið hráefni að mínu mati og mæli með því að fólk prufi sig áfram. Þetta er fiskur sem börn eru almennt mjög hrifin af.“
Uppskriftin er fyrir fjóra.

Innihald:

1 kg. keila

1 tsk. mulinn rósapipar

2 tsk. jurtasalt

2 tsk. Eðalkrydd frá Pottagöldrum

1 Camembert

olía eða smjör til steikingar

 

Sósa:

1 stór laukur eða 2 litlir – saxað smátt

1 lítil rauð paprika – saxað smátt

olía

1 peli kaffirjómi

1 dós humarostur

1 teningur grænmetiskraftur án MSG (E-621)

svartur pipar og rósapipar

2-3 msk hvítvín

Aðferð:

Fiskflökin eru skorin í 5 cm bita og krydduð með rósapipar, jurtasalti (Herbamare) og Eðalkryddi. Stykkin eru steikt í smjöri eða olíu beggja vegna og sett í eldfast mót.

 Sósa:
Laukurinn og paprikan steikt í olíu – passa að láta þetta ekki brúnast. Kaffirjóminn og humarosturinn bætt út í svo og kryddinu. Hvítvínið sett síðast í. Smakkið til. Sósan fer síðan yfir fiskinn. Camembert osturinn skorinn í 1 cm þykkar sneiðar og þeim raðað ofan á hvern fiskbita. Sett inn í 200 °C heitan ofn og látið vera þar til osturinn er orðinn bráðinn.

 Meðlæti:
Soðnar íslenskar kartöflur og gott hrásalt hentar best með þessum rétti.

 

 

 

Deila: