Útbreiðsla hafíss nálægt sögulegu lágmarki

Deila:

Mælingar á hafísnum á norðurskautinu benda til þess að hann hafi náð lágmarki eftir sumarbráðnunina í síðustu viku. Lágmarksútbreiðsla hans var þá sú áttunda minnsta frá því að mælingar hófust samkvæmt frétt á visir.is

Hafísinn þakti 4,64 milljónir ferkílómetra 13. september samkvæmt mælingum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA og Snjó- og ísgagnamiðstöðvar Bandaríkjanna. Útbreiðslan hefur aðeins sjö sinnum verið minni frá því að gervihnattamælingar hófust árið 1978.

Árið í fyrra var eitt þriggja verstu áranna fyrir hafísinn. Þá blésu öflugir sumarstormar sem hröðuðu bráðnun ísbreiðunnar. Slíkir stormar hefðu ekki haft eins mikil áhrif á hafísinn á árum áður þar sem hann var þykkari og breiddi úr sér yfir stærra svæði.

Áratugir bráðnunar halda ísnum í lágmarki
Sumarið í hefur ekki verið óvenjuhlýtt á norðurskautinu og sum svæði voru jafnvel svalari en venjulega. Þrátt fyrir það er lágmarksútbreiðsla hafíssins nú 1,58 milljónum ferkílómetrum undir meðaltali hennar á tímabilinu 1981 til 2010.

„Veðuraðstæður hafa ekki verið sérlega eftirtektarverðar í sumar. Sú staðreynd að við skulum samt hafa endað með litla lágmarksútbreiðslu er vegna þess að grunnstaða íssins nú er verri en hún var fyrir 38 árum,“ segir Claire Parkinson, loftslagsvísindamaður við Goddard-geimstöð NASA í frétt á vefsíðu stofnunarinnar.

Tap hafíssins endurspeglar hnattræna hlýnun sem á sér stað á jörðinni. Það magnar hins vegar einnig þá hlýnun sem er að verða vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Skjannahvítur ísinn endurvarpar geislun sólar aftur út í geim hefur þannig áhrif til kólnunar á loftslag jarðar.

Þegar ísinn víkur aftur á móti fyrir dökkum sjó sem drekkur í sig varma sólargeislanna eykst hlýnun jarðar. Bráðnun hafíssins er þannig bæði afleiðing og hluti af orsök hnattrænnar hlýnunar.

Myndbandið hér fyrir neðan sýnir hvernig útbreiðsla hafíssin á norðurskautinu hefur þróast í sumar.

https://youtu.be/Q7iJPQFrrJs

 

 

Deila: