Makrílveiðar Norðmanna ganga vel
Veiðar Norðmanna á makríl í nót hófust í byrjun september. Þær fóru rólega af stað, en hafa síðan glæðst. Á hinn bóginn skyggir það á gleðina að verð fyrir makrílinn er nú mun lægra en á sama tíma í fyrra samkvæmt frétt frá Norges Sildesalgslag, sölusamtökum Norðmanna fyrir uppsjávarfisk.
Fyrsta skipið til að landa nótamakríl var Svanaug Elise með 550 tonn. Á fyrstu dögunum þar á eftir eða í viku 36 var samtals landað 3.750 tonnum. Í næstu viku varð aflinn 21.300 tonn, þar af 10.000 tonnum á einum degi. Um er að ræða afla úr norskri og færeyskri lögsögu.
Makríllinn í ár er mun stærri en í fyrra, nær allt upp í 473 grömm. Meðalvigtin í viku 37 var 423 grömm en í sömu viku í fyrra var meðalþyngdin 385 grömm. Í viku 38 var svo landað 45.800 tonnum og var meðalþyngdin um 459 grömm. Megnið af makrílnum er fryst í landi en eitthvað fer ferskt á markað. Gert er ráð fyrir áframhaldandi góðri veiði nú í lok mánaðarins.
Þrátt fyrir að markaðir fyrir makríl séu nú meiri en í fyrra, hefur verðið fallið um 18% miðað við sama tíma í fyrra. Meðalverð fyrir makrílinn á þessum tíma í fyrra var 134,28 íslenskar krónur á kíló að meðaltali, en nú er það 127 krónur.