Loðnan braggast í Barentshafi

Deila:

Ástand loðnustofnsins í Barentshafi virðist vera betra en mörg undanfarin ár og hugsanlegt að fiskifræðingar ráðleggi veiðar þar í fyrsta sinn í langan tíma. Mörg undanfarin ár hefur engin loðna veiðst annars staðar en við Ísland og hefur það styrkt stöðu Íslands á mörkuðum fyrir loðnuafurðir verulega.
Betri staða loðnustofnsins kemur fram í leiðangri norsku hafrannsóknastofnunarinnar í Barentshafinu, sem nú er að ljúka.
Loðnan er einn af lykilstofnum fiska í Barentshafinu, hún er ein mikilvægasta fæðan fyrir fyrir aðrar fiskitegundir, meðal annars þorsk, og sömuleiðis fyrir sel og hval. Vöxtur og viðgangur þorskstofnsins er til dæmis verulega háður loðnunni.

Um þetta er fjallað á vef sildelaget.no, sölusamtala uppsjávarfisktegunda í Noregi og rætt við leiðangursstjóra í leiðangri rannsóknaskipsins Johan Hjort, Georg Skaret. Í fyrra og hitteðfyrra var það mat fiskifræðinga að loðnustofninn í Barentshafi væri að hrynja eins og áður hafði gerst þrisvar sinnum, í fyrsta sinn á níunda áratugnum. Nú er útlitið allt annað.

„Meira var  til dæmis um kynþroska loðnu sem verður tilbúin til hrygningar í vetur en búist var við. Það bendir til þess að hrunið hafi verið skammvinnara í þetta skipti en áður,“ segir Skaret.

En verður gefinn út loðnu loðnukvóti fyrir næstu vertíð?

„Við förum nú yfir niðurstöður loðnuleitarinnar og reiknum út stofnstærðina. Útlitið er betra en undanfarin ár, en ég get ekkert sagt um ráðgjöfina fyrr en við höfum lokið útreikningum okkar,“ segir Skaret.

Deila: