Sterk samkeppnisstaða og meðbyr á mörkuðum

Deila:

Metpantanir voru hjá Marel á þriðja ársfjórðungi 2017, eða sem námu 296 milljónum evra. „Markaðsaðstæður eru áfram góðar og samkeppnisstaða Marel er sterk. Pantanabókin stendur vel og nam 468 milljónum evra við lok fjórðungsins. Tekjur fyrir tímabilið námu 247 milljónum evra og rekstrarhagnaður (EBIT) var 15,2%,” segir í fréttatilkynningu frá Marel.

Tekjur fyrstu níu mánaða ársins 2017 námu 743 milljónum evra, samanborið við 733 milljónir evra (pro forma) fyrir sama tímabil 2016. EBIT* fyrstu níu mánaða ársins 2017 nam 111 milljónum evra (15% af tekjum), samanborið við 108 milljónir evra á pro forma grunni fyrir sama tímabil 2016 (14,8% af tekjum).

Kaup Marel á brasilíska félaginu Sulmaq sem framleiðir búnað fyrir frumvinnslu kjöts, gengu formlega í gegn 31. ágúst 2017. Árlegar tekjur Sulmaq nema um það bil 25 milljónum evra. Til skemmri tíma litið munu kaupin ekki hafa efnisleg áhrif á rekstrarniðurstöðu Marel.

„Sjóðstreymi frá rekstri var óvenjulega sterkt á þriðja ársfjórðungi. Skuldahlutfall félagsins heldur áfram að lækka þrátt fyrir kaupin á Sulmaq fyrir kaupverð nálægt 26 milljónum evra og nettó kaup á eigin bréfum fyrir 12 milljónir evra á tímabilinu. Við lok þriðja ársfjórðungs var skuldahlutfallið komið niður í x2,0 nettó skuldir/EBITDA, samanborið við x2,15 við lok annars ársfjórðungs 2017. Marel mun áfram fjárfesta til framtíðar til að vera betur í stakk búið til að styðja við frekari vöxt og virðisaukningu.“

„Samkeppnisstaða Marel er sterk og það er góður meðbyr á mörkuðum sem skilaði sér í aukinni sölu og námu pantanir á fjórðungsins 296 milljónum evra. Við erum ánægð með rekstrarniðurstöðu fjórðungsins, en tekjur félagsins námu 247 milljónum evra og EBIT var rúmlega 15%.

Þessi sterka niðurstaða fékkst, þrátt fyrir að rekstrarniðurstaðan í kjöti hafi gefið eftir á þriðja ársfjórðungi samanborið við fyrri fjórðunga. Firnasterk afkoma í kjúklingi á tímabilinu bætir það upp, sem er til vitnis um hvernig viðskiptamódel Marel virkar. Sem leiðandi félag á heimsvísu í þróun hátæknibúnaðar fyrir vinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski náum við að jafna sveiflur á milli rekstrareininga og skila góðri heildarniðurstöðu.

Góð afkoma og sterkt sjóðstreymi gerir okkur kleift að halda áfram að fjárfesta í nýsköpun og uppbyggingu innviða. Á þriðja ársfjórðungi gengu kaupin á Sulmaq formlega í gegn fyrir 26 milljónir evra og til viðbótar námu nettó kaup á eigin bréfum 12 milljónum evra á tímabilinu. Fjárhagsleg staða Marel er góð og nettó skuldir nema nú tvisvar sinnum EBITDA.

Við munum halda áfram að vinna með nýjum og núverandi viðskiptavinum okkar að því að umbreyta matvælaframleiðslu á heimsvísu,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.

Horfur

Gert er ráð fyrir áframhaldandi góðum markaðsaðstæðum í kjúklingi og fiski, en í kjöti má gera ráð fyrir lakari horfum til skemmri tíma litið. Langtímahorfur eru góðar þvert á alla iðnaði. Sterk staða pantanabókar gefur til kynna að tekjur verði hærri á næstu misserum.

Marel stefnir á 12% árlegan meðalvöxt tekna næstu 10 árin.

  • Marel gerir ráð fyrir að markaðsvöxtur nemi 4-6% á næstu árum
  • Marel ætlar að vaxa hraðar en markaðurinn með sterkri markaðsstöðu og nýsköpun
  • Áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi getur stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjuvöxtur

Áætlaður vöxtur verður ekki línulegur og veltur á þeim tækifærum sem í boði eru hverju sinni og hagsveiflum. Gera má ráð fyrir því að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Kauphallardagur Marel í Danmörku

Marel heldur kynningarfund með fjárfestum og markaðsaðilum í sýningarhúsi sínu Progress Point í Kaupmannahöfn þann 2. nóvember 2017.

Deila: