Fiskafli í Færeyjum í lægri kantinum

Deila:

Landanir af botnfiski í Færeyjum eru á svipuðu róli fyrstu níu mánuði ársins og í fyrra og reyndar nokkur síðustu ár. Ýsuafli er svipaður nú og í fyrra, landanir á þorski eru 11% minni og ufsaafli 14% meiri.

Af öðrum tegundum má nefna að mun meira hefur veiðst af karfa. Þar hefur aflinn farið úr 700 tonnum í 1.700. Flatfiskafli hefur dregist saman um 14% og heldur minna hefur veiðst af grálúðu. Landanir af öðrum tegundum en bolfiski og flatfiski hafa dregist saman um 11% en þar er mest um gulllax að ræða.

Aflaverðmætið er heldur lægra nú en í fyrra. Til dæmis hefur verið landað 14% meiru af ufsa í ár, en verðmæti aflans hefur samt lækkað um 9% miðað við stöðuna á sama tíma í fyrra.

Á myndinni má sjá fiskafla við Færeyjar eftir níu mánuði undanfarin ár.

Á myndinni má sjá fiskafla við Færeyjar eftir níu mánuði undanfarin ár.

Þegar litið er nánar á einstakar tegundir er þorskaflinn að loknum níu mánuðum á þessu ári 8.870 tonn, sem er 1.129 tonnum minna en á sama tíma í fyrra. Af ýsu var búið að landa 2.911 tonn, sem er 31 tonni meira en í fyrra. Ufsaaflinn nú var 20.058 tonn, sem er aukning um 2.531 tonn. 3.445 tonnum af grálúðu var landað á tímabilinu sem er samdráttur um 777 tonn.

 

Deila: