Ekki tókst að stöðva karfaveiðar á Reykjaneshrygg

Deila:

Ársfundur Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, sá 36. í röðinni, var haldinn í London 13.–17. nóvember. Ráðið fer með stjórn fiskveiða utan lögsagna einstakra ríkja á Norðaustur-Atlantshafi. Aðild að því eiga Danmörk (f.h. Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland. Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fór fyrir íslensku sendinefndinni á fundinum.

Af hálfu Íslands var mest áhersla lögð á að stöðva veiðar á karfa á Reykjaneshrygg, en þar lá fyrir ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) um að engar veiðar skyldu stundaðar næsta ár. Ekki náðist samkomulag um að stöðva veiðarnar og veldur því andstaða Rússa sem ekki viðurkenna mat ICES á stöðu þessara karfastofna. Samþykkt var tillaga ESB og Danmerkur fyrir hönd Færeyja og Grænlands um takmarkaðar veiðar, þ.e. 6.500 tonn sem er 1.000 tonnum minna en í ár. Sem fyrr  mun Rússland setja sér einhliða kvóta langt umfram þessa viðmiðun. Þessi niðurstaða er sem fyrr mikil vonbrigði fyrir Ísland.

Ekki liggur fyrir samkomulag strandríkja varðandi veiðar úr deilistofnunum, síld, kolmunna og makríl og því var ekkert samþykkt á fundinum annað en að ríkin skyldu setja sér takmarkanir og öðrum en aðildarríkjum væri óheimilar veiðar á stjórnunarsvæði NEAFC.
Samþykkt var að framlengja svæðalokanir vegna viðkvæmra vistkerfa s.s. kóralla auk þessa sem eitt af lokuðu svæðunum var stækkað á grunni ráðgjafar ICES.

Fundurinn samþykkti tillögu Íslands og Noregs um aukna varúð við stjórn veiða á djúpsjávartegundum utan lögsagna ríkja.

Þá samþykkti fundurinn að setja á fót vinnuhóp sem fjalla skal um samspil fiskveiðistjórnunar á úthafinu við vernd viðkvæmra vistkerfa á landgrunni sem tilheyra strandríki.

 

Deila: