Laxaflök með gremolata og kartöflumús

Deila:

Nú fáum við okkur lax með kartöflumús. Það kann að virðast svolítið hversdagslegt, en svo er ekki því með laxinum notuð sérstök grænmetisblanda, sem gefur mjög sérstakt bragð. Rétturinn er því góð tilbreyting og auðgar flóru uppskrifta í safni heimilisins. Þessi uppskrift er úr bæklingnum Fiskur fyrir öll tækifæri, sem gefinn var út af Altungu á Akureyri.

Innihald:

Gremolata:

4 msk. Ítölsk steinselja
3 tsk. rifinn sítrónubörkur
2 stór hvítlauksrif, fínsöxuð

850 g mjölríkar kartöflur, flysjaðar og skornar í fernt
40 g smjör í bitum
170 ml heit mjólk
2 msk. Jómfrúarólífuolía
4 bitar af laxaflaki
sítrónubitar til að bera fram með.

Aðferðin:

Til að gera gremolata er steinselja, sítrónubörkur og hvítlauksrif sett í litla skál og blandað vel saman.

Hitið léttsaltað vatn í stórum potti að suðu og sjóðið kartöflurnar í 10 mín. eða þar til þær mýkjast. Látið renna vel af og stappið þær með þar til gerðu áhaldi og setjið aftur í pottinn. Bætið smjörinu við og setjið yfir hitann. Hitið og hrærið í með trésleif þar til músin verður jöfn og mjúk. Kryddið með salti og pipar.

Hitið olíuna í þykkbotna steikarpönnu og setjið laxinn á hana með roðið niður. Steikið við háan hita í 2 mín. á hvorri hlið eða lengur ef óskað er. Setjið kartöflumúsina á fjóra hitaða diska og laxabita þar ofan á. Dreifið gremolata yfir fiskinn og berið strax fram með sítrónubátum.

Sjálfsagt er að eyna aðrar tegundir af fiski.

Deila: