Stærsti samningur íslensks tæknifyrirtækis
Íslenska hátæknifyrirtækið Skaginn 3X og færeyska útgerðafélagið Varðin Pelagic hafa undirritað samning um vinnslubúnað fyrir nýja uppsjávarvinnslu færeyska fyrirtækisins. Vinnslan verður staðsett á Suðurey en um er að ræða þá stærstu sinnar tegundar í heiminum. Nýja vinnslan mun hafa afkastagetu fyrir allt að 1.300 tonn af pakkaðri vöru á sólarhring með möguleika til stækkunar allt að 1.700 tonnum á sólarhring. Auk Skagans 3X koma fyrirtækin Frost og Rafeyri á Akureyri að verkinu ásamt fleiri íslenskum fyrirtækjum.
Skaginn 3X með forskot í samanburði
Skaginn 3X hafði áður sett upp heildarvinnslu fyrir Varðin Pelagic árið 2012, sem á sínum tíma var stærsta og fullkomnasta uppsjávarvinnsla í heiminum. Húsnæðið sem hýsti vinnsluna brann í júní síðastliðinn og síðan hefur Varðin Pelagic farið út í mikinn og nákvæman samanburð á lausnum til að geta byggt upp að nýju.
„Það var skylda okkar að skoða alla kosti sem voru í boði og einnig að hlusta á kröfur viðskiptavina okkar og aftur höfum við komist að þeirri niðurstöðu að lausnin frá Skaganum 3X sé sú framúrskarandi lausn sem mætir okkar kröfum best,“ segir Bogi Jacobsen, forstjóri Varðin Pelagic. Stærsti samningur sinnar tegundar
„Þetta er stærsti samningur í sögu fyrirtækisins og að mér vitandi, stærsti samningur sem íslenskt tæknifyrirtæki hefur gert,“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdarstjóri Skagans 3X og bætir við „Það er mikil viðurkenning í því fólgin að Varðin hafi aftur valið okkur og er sönnun þess að okkar lausn er í senn áreiðanleg og framsækin“ segir Ingólfur.
Skaginn 3X hefur undanfarið gert fjölda samninga um nýjar lausnir í uppsjávariðnaði og má þar helst nefna uppsetningu á nýrri verksmiðju fyrir Eskju á Eskifirði, samning við France Pélagique um nýja kynslóð sjálfvirkrar vinnslu fyrir skip að auki samningsins við Varðin Pelagic. Allar þessar lausnir eru stór skref í framþróun á sjálfvirknivæðingu og bættum gæðum afurða. Vinnslan nýja er byltingarkennd heildarlausn fyrir uppsjávariðnaðinn þar sem sérstök áhersla er lögð á umhverfisvernd, skilvirkni og afurðagæði.
„Fjölbreyttir möguleikar í framleiðslu og pökkun eru mikilvægir til að fullnýta auðlindir hafsins og til að mæta auknum kröfum markaðarins,” segir Ingólfur.