Færeyingar mótmæla einhliða niðurfellingu gildandi fiskveiðisamnings

Deila:

Færeysk stjórnvöld lýsa mikilli undrun sinni á þeirri stöðu sem komin er upp í samningaviðræðum Færeyja og Íslands og hvernig íslensk stjórnvöld kynna hana. Þá er því mótmælt að gildandi fiskveiðisamningur sé felldur úr gildi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá færeyskum stjórnvöldum en þar segir ennfremur:

Högni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Högni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Í samningaviðræðum milli Færeyja og Íslands í Þórshöfn 13. desember 2017 tókst ekki að ljúka fiskveiðisamningi fyrir árið 2018. Samningsaðilar ákváðu þar aðeins að halda áfram samskiptum sínum til þess að gera mætti nýjan samning fyrir 2018.

Þrátt fyrir það eru milli jóla og nýárs tekin mjög óvænt og einhliða skref af íslenskum stjórnvöldum og tilkynning um stöðu viðræðnanna er ekki í samræmi við afstöðu og upplifun Færeyinga af þeim.

Ísland hefur meðal annars fellt úr gildi samþykkt og gildandi samkomulag um loðnuveiðar fyrir árið 2018.

Landstjórn Færeyja undrast þetta framferði mikið og mótmælir þessari ólöglegu aðgerð. Sjávarútvegsráðherra hefur, í samræmi við gildandi lög, ráðfært sig við utanríkismálanefnd Lögþingsins vegna málsins.

Hvorki nýjar né auknar kröfur frá Færeyjum

Í tilkynningu íslenskra stjórnvalda er lýst samskiptum sem eru ekki í samræmi við sjónarmið Færeyinga og upplifun þeirra af stöðunni.

Meðal annars er þar sagt að Færeyjar hafi lagt fram nýjar og auknar kröfur í samningaviðræðunum við Ísland. Það er ekki rétt. Um var að ræða hefðbundnar samningaviðræður, þar sem báðir aðilar viðruðu óskir sínar, og tekin upp að nýju þau atriði, sem hafa verið óleyst, og atriði sem aðilarnir hafa orðið sammála um og samið um á síðustu árum.

Í samningaviðræðunum lögðu Færeyjar enn á ný fram sýn sína á hinar órökstuddu skorður sem Ísland krefst að í gildi séu fyrir færeysk skip, sem stunda loðnuveiðar innan lögsögu Íslands.

Ísland krefst þess að eftir 15. febrúar megi færeysk skip aðeins landa þriðjungi loðnuafla síns til manneldisvinnslu í Færeyjum. Af hálfu Færeyja hefur verið sýnt fram á að þessi krafa er ekki heimil samkvæmt ákvæðum Hoyvíkursáttmálans, sem er fríverslunarsamningur milli Færeyja og Íslands.

Færeyingar hafa árum saman viljað fá fram breytingar á þessu ákvæði í fiskveiðisamningum þjóðanna. Það er óskiljanlegt að í samkomulagi um fiskveiðar sé ákvæði sem kveður á um að ekki sé hægt að nýta fiskaflann á þann hátt sem skilar mestum verðmætum og gæðum og miklum verðmætum sé kastað á glæ.

Í síðustu samningaviðræðum í janúar 2017 varð það að samkomulagi milli samningsaðila að Ísland skyldi stuðla að því að embættismenn þjóðanna myndu ræða saman og komast að niðurstöðu um þetta mál í síðasta lagi að sumri 2017. Það var þó ekki gert. Þrátt fyrir áskoranir um að farið yrði í slíkar samningaviðræður, hefur Ísland ekkert aðhafst.

Þess vegna fóru Færeyingar nú fram á að teknar yrðu raunhæfar ákvarðanir til þess að greiða fyrir því að þessar skorður yrðu felldar úr gildi.

 

Óskir um skipti á aflaheimildum

Færeyjar óskuðu þess einnig að möguleikar færeyskra skipa til þorskveiða innan lögsögu Íslands yrðu auknir og buðu heimildir til veiða á uppsjávarfiski á móti. Einnig buðu Færeyingar Íslendingum áframhaldandi aðgang að veiðum á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja.

Ísland vildi ekki semja um leiðir til að aflétta skorðum við veiðum færeysku loðnuskipanna. Þá kröfðust þeir að yrðu möguleikar Færeyja til þorskveiða við Ísland auknir, myndi loðnukvóti Færeyinga minnka um 20%.

Það reyndist ekki mögulegt hjá löndunum að ná samkomulagi á þessum grunni og var því frekari viðræðum frestað, en ákveðið að vinna áfram saman að lausnum á ágreiningsmálum og gera nýtt samkomulag.

Ennfremur var um það rætt að Færeyjar og Ísland myndu áfram vinna saman að því að gera rammasamning um fiskveiðar milli beggja landanna.

Samningsaðilar skildu því á jákvæðum nótum í von um að lausnir fyndust.

Enn hefur þó ekkert samkomulag verið frágengið og enginn fiskveiðisamningur verið gerður milli Færeyja og Íslands.

Afleiðing þess er að eftir 31. desember hafa íslensk fiskiskip ekki getað haldið áfram að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld innan lögsögu Færeyja. Íslensk skip hafa síðustu árin veitt nánast allan kolmunnakvóta sinn við Færeyjar. Árið 2017 veiddu íslensk skip 196.300 tonn af kolmunna og 25.500 tonn af norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja. Á sama hátt geta færeysk skip ekki haldið áfram að veiða botnfisk á Íslandsmiðum á árinu 2018. Færeysk skip hafa mörg síðustu ár getað veitt 5.600 tonn af botnfiski við Ísland.

Ísland hefur nú að auki tekið þá óvenjulegu og ólöglegu ákvörðun að afturkalla þær heimildir sem færeysk skip hafa til loðnuveiða við Ísland fram til 30. apríl 2018 samkvæmt samningi milli sjávarútvegsráðherra landanna frá 16. janúar 2017. Þessi samningur hefur verið formlega staðfestur í bréfaskiptum milli utanríkisráðherra landanna, sem hluti af fiskveiðisamningnum milli landanna fyrir árið 2017.

Það er meðal annars vegna þessara veiðimöguleika, sem íslensk skip hafa veitt nánast allan sinn kolmunnakvóta auk mikils hluta kvóta síns í norsk-íslenskri síld, innan lögsögu Færeyja á árinu 2017.

Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra, undrast það verulega að Ísland skuli með þessum hætti hlaupa frá gerðum samningi milli Færeyja og Íslands og sérstaklega að það skuli vera gert eftir að Ísland hefur nýtt sér sína möguleika, sem í samningnum felast.

„Samningaviðræður milli bræðraþjóða byggjast á óskum frá báðum löndunum og vilja til að finna lausnir og samninga, sem eru báðum aðilum gagnlegir – og sem greiða úr áður óleystum málum sem upp koma á ný. Við Færeyingar göngum einnig nú til samningaviðræðna á venjulegan hátt og í góðum anda.“

 

 

 

 

Deila: