Fer í einhverjar frumeindir yfir daginn

Deila:

„Við lönduðum síðast 2.400 tonnum á Þórshöfn og erum nú í öðrum túr með 1.100 tonn og erum að toga, stefnum að því að vera inni í kvöld. Það er eitthvað aðeins rólegra yfir þessu nú en í gær. Maður er bara niðursokkinn í þetta,“ sagði Pétur Andersen, skipstjóri á Sigurði VE, skipi Ísfélags Vestmannaeyja, þegar Kvótinn sló a þráðinn til hans upp úr hádeginu.

„Við erum hérna norðuraustur af landinu og togi núna. Veiðin er þannig að að er séns að ná henni á morgnana og fram yfir hádegið og kannski aðeins seinnipartinn. Svo er frekar lítið að að gerast. Loðnan þéttir sig þegar hún fer niður þegar byrjar að birta, svo fer þetta bara í einhverjar frumeindir yfir miðjan daginn. Hún kemur svo upp á kvöldin og dreifir sér bara. Menn hafa því bara verið að kasta snemma á morgnana og hífa seinnipartinn. Síðan er bara verið að krussa og skoða hvar rykið er þéttast og vonast til að hún þétti sig þar með morgninum.

Það er búin að vera fín veiði yfir daginn síðustu daga og verið blíða en það var skítaveður um helgina veður. Við erum að toga í um átta tíma og í gær voru 600 tonn í hjá okkur og 460 deginum áður. Maður hefur heyrt mest upp í 750 tonn hjá Venus í fyrradag.

Þetta er stór og fín loðna og hentar vel í frystingu. Við höldum okkur hérna norðar þar sem við erum að veiða í vinnslu fyrir verksmiðju Ísfélagsins á Þórshöfn. Loðnan er dreifð á stóru svæði en einhver áta í henni sunnar,“ sagði Pétur.

Nú eru þrír bátar á þessu svæði, Sigurður, Guðrún Þorkelsdóttir og Aðalsteinn Jónsson. Svo eru fjórir aðeins sunnar, þeir Ásgrímur Halldórsson, Hákon og töluvert sunnar Beitir og Víkingur.

„Loðnan gengur nú hratt austur og suðaustur eftir og það verður líklega um mánaðamótin sem hún verður komin upp á grunnin. Þá tekur nótin við en þeir eru byrjaðir á henni einhverjir hérna sunnar en ég hef ekkert frétt af því.“

Pétur segir enga grein gera sér fyrir því hve mikið sé á ferðinni af loðnu núna. Loðnan sé á stóru svæði og hafi ekki þétt sig enn og því sé erfitt að segja  til um mögulega þróun veiðanna.

Hafrannsóknaskipin eru við sunnanverða Austfirði og koma á móti göngunni til að mæla hana.

Deila: