Salta síldina af Hoffellinu
Yfir jól og áramót var Hoffell SU 80 í vélarupptekt í Hafnarfirði. Þeirri viðhaldsvinnu var lokið á dögunum og fór þá Hoffellið beint til síldveiða á Faxaflóadýpi. Þessi fyrsti túr ársins hjá Hoffellinu gekk vel því eftir sólarhring á veiðum var aflinn kominn í 500 tonn og tímabært að leggja af stað til heimahafnar á Fáskrúðsfirði þar sem síldin fer öll til söltunnar.
Bergur Einarsson skipstjóri sagði í samtali við heimasíðu Loðnuvinnslunnar síldina vera fallega og væna og aðspurður sagði Bergur einnig að veðrið hefði verið gott og túrinn hefði gengið snurðulaust fyrir sig. Að lokinni löndun fer Hoffellið aftur til veiða á síld.