Verða að kunna íslensku!

Deila:

Norsku loðnuskipin eru nú byrjuð að melda sig til veiða við Ísland, en þau hafa töluverðan kvóta hér við land vegna samninga um gagnkvæmar veiðiheimildir milli Íslands og Noregs, samtals um 64.000 tonn. Skipin þurfa að fara eftir reglugerðum sem íslensk stjórnvöld gefa út um veiðarnar á íslensku, en sá hængur er á að norsk stjórnvöld telja sig ekki hafa bolmagn til að þýða þær reglugerðir yfir á norsku og heldur ekki ensku. Skipstjórarnir virðast því verða að kunna íslensku.

Þess vegna birtir norska sjávarútvegsráðuneytið reglugerðir um veiðarnar á heimasíðu sinni á íslensku og tekur fram að sé um að ræða reglugerð um rafrænar tilkynningar sé fyrirliggjandi þýðing norska sendiráðsins í Reykjavík á henni frá árinu 2014. Hins vegar hafi reglugerðinni verið breytt og þær breytingar er ekki að finna á heimasíðu norska ráðuneytisins.

Þá er á síðunni að finna norska þýðingu sendiráðsins um eftirlitspunkt og hefur henni ekki verið breytt. Þó er lög áhersla á að komi til lagalegs ágreinings gildi ekki norska þýðingin heldur hin upprunalega íslenska reglugerð á íslensku.

Norskir skipstjórar og útgerðarmenn virðast því þurfa að vera vel að sér í íslensku til að gæta þess að fara að settum reglum við loðnuveiðarnar við Ísland.

Samtals mega 30 norsk skip stunda loðnuveiðar við Ísland samtímis samkvæmt tilkynningu norska sjávarútvegsráðuneytisins.

Deila: