Svipað magn af kynþroska loðnu

Deila:

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, ásamt grænlenska veiðiskipinu Polar Amaroq, hafa undanfarna daga verið við mælingar á stærð loðnustofnsins og hafa nú lokið fyrstu yfirferð sinni. Um borð í Polar Amaroq er teymi vísindamanna frá Hafrannsóknastofnun en auk ofangreindra skipa aðstoðaði veiðiskipið Bjarni Ólafsson við leit ásamt því að fleiri uppsjávarskip könnuðu ákveðin svæði á leið sinni til veiða.

Í leiðangrinum hefur útbreiðsla hrygningargöngu loðnunnar verið kortlögð og náði rannsóknasvæðið frá Norðfjarðardjúpi í austri að Hornál í vestri (sjá mynd fyrir neðan) en þar þurftu skipin frá að hverfa vegna veðurs. Vestast á rannsóknasvæðinu var uppistaða loðnunnar ung og ókynþroska og telst ekki til veiðistofns yfirstandandandi vertíðar. Kynþroska loðnu var að finna meðfram og utan við landgrunnskantinn á mest öllu rannsóknasvæðinu, mest fyrir austanverðu Norðurlandi en mjög lítið vestast á því svæði sem kannað var. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar vinna nú að því að sameina gögnin og reikna út hversu mikið af loðnu er á rannsóknasvæðinu en þeirri vinnu er ekki að fullu lokið.

Í þeirri yfirferð sem er lokið var mælt frá austri til vesturs en um leið og veður gengur niður er ráðgert að fara aðra yfirferð frá vestri til austurs áður en mælingum á stærð loðnustofnsins lýkur. Mat á stærð veiðistofnsins sem og ráðgjöf um heildarveiði vertíðarinnar mun ekki liggja fyrir fyrr en að loknum þeim mælingum.

Enda þótt úrvinnslu allra gagna úr fyrstu yfirferð sé ekki lokið telur Hafrannsóknastofnun rétt að upplýsa að bráðabirgða niðurstöður benda til svipaðs magns kynþroska loðnu og búast mátti við samkvæmt mælingum á stærð stofnsins í september – október 2017. Skekkjumörk í mælingunni eru óvenju há en of snemmt er að draga ályktanir um áhrif þess á endanlega ráðgjöf sem verður gefin að lokinni seinni yfirferð.

 

Deila: