Veiðar á skötusel vottaðar

Deila:

Samtökin Iceland Sustainable Fisheries, IFS, (sjálfbærar veiðar við Ísland) hafa fengið vottun á veiðum á skötusel við landið samkvæmt staðli Marine Stewardship Council. Þetta er fyrsta vottun á veiðum á skötusel í heiminum. Það var vottunarstofan Tún, sem sá um úttektina á veiðunum og mat á sjálfbærni þeirra. Þetta er jafnframt í áttunda skiptið sem ISF er fyrst til að fá vottun á nýja fisktegund. Nú eru allar uppsjávarveiðar Íslendinga vottaðar og yfir 90% af öllum lönduðum afla kemur úr vottuðum veiðum.

ISF var stofnað 2012 sem hópur íslenskra fyrirtækja sem hagsmuna eiga að gæta í íslenskum sjávarútvegi. Markmið samtakanna er að fá vottun á allar fiskveiðar Íslendinga og í þeim eru nú yfir 50 fyrirtæki.

Áður fyrr var skötuselur að mestu leyti veiddur í troll, sem meðafli, en nú er hann fyrst og fremst veiddur í net. Frá 2000 til 2007 voru netaveiðarnar að mestu stundaðar við suðurströndina, en eftir 2008 hafa veiðarnar færst vestur fyrir landið og eru stundaðar á sumrin og fram á vetur. Síðustu þrjú árin hefur aflinn verið undir 1.000 tonnum.
Þau veiðarfæri sem fengið hafa vottun eru botntroll, humartroll, snurvoð, net, lína og skötuselsnet.

Bretland er mikilvægasti markaðurinn fyrir afurðir úr skötusel, en þangað fara um 60% útflutningsins. Um 70% afurðanna eru ferskir halar. Önnur mikilvæg útflutningslönd eru Danmörk, Þýskaland, Svíþjóð, Sviss, Frakkland og Beneluxlöndin, Belgía, Holland og Lúxemborg. Þetta eru markaðir þar sem vottun MSC er mjög úrbreidd.

Kristinn Hjálmarsson framkvæmdastjóri ISF segir að hópurinn sé stoltur af því að skötuselurinn sé nýjasta viðbótin við vottaðar fisktegundir. Aflinn sé ekki mikill, aðeins 853 tonn þetta fiskveiðiár, sem valdi því að kostnaður á hvert vottað tonn sé mikill. Engu að síður breyti það ekki þeirri staðreynd að hópurinn vilji hafa veiðarnar vottaðar sem sjálfbærar. Stærðin skipti ekki máli og ekki magnið heldur. Vonandi muni neytendur meta þá viðleitni til að bjóða þeim upp á sjálfbærar fiskitegundir bæði í litlu og miklu magni

Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, óskar ISF til hamingju með vottunina. Hún sé enn frekari  staðfesting þess að aðferð MSC til að hvetja betri til starfsaðferða virki. Þegar menn sjái aðra í sömu atvinnugrein njóta þess að fá vottun MSC á smásölumörkuðum , sé það hvatning fyrir þá að öðlast vottun fyrir sig.

„Ísland er orðið eitt af þeim löndum þar sem flestar fiskitegundir hafa fengið umhverfisvottun um sjálfbærni. Þessi árangur hefur náðst vegna öflugrar atvinnugreinar, vísinda, stjórnunar og forystu ISF. Nánast er hægt að fullyrða að sé afurðin íslensk, þá sé hún úr vottuðum veiðum af MSC,“ segir Gísli.

 

Deila: