Afar rólegt á loðnunni

Deila:

Það er afar rólegt yfir loðnuveiðinni. Um helgina lönduðu fjögur norsk skip um 2.000 tonnum í Neskaupstað en fjöldi norskra skipa liggur inni á Austfjarðahöfnum og bíður þess að fá að hefja veiðar. Í gær voru Norðmennirnir að kasta grunnt norður af Sléttu en árangurinn reyndist misjafn. Norsku skipin eru búin að tilkynna 19.000 tonna afla það sem af er vertíð og eiga þá eftir að veiða um 44.000 tonn.

Í gær fréttist að hinn færeyski Júpíter hefði fengið 1.000 tonn af loðnu í þremur köstum og mun hann hafa haldið til Færeyja með aflann.

Eftir því sem best er vitað eru einungis þrjú íslensk skip á loðnumiðunum en þau munu halda sig við Stokksnes. Skipin eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Ísleifur VE og Hoffell SU. Þegar þetta er skrifað liggur grænlenska skipið Polar Amaroq inni á Reyðarfirði og er að frysta. Aflinn fékkst við Suðausturland og sló heimasíða Síldarvinnslunnar á þráðinn til Geirs Zoëga skipstjóra: „Við gerum ráð fyrir að skipa aflanum um borð í flutningaskip á miðvikudag. Þetta er sjötti túrinn okkar á vertíðinni og við erum búnir að veiða 5.199 tonn. Vertíðin hefur gengið vel hjá okkur því við tókum 10 daga í loðnumælingar í samstarfi við Hafró. Ég tel að það sé framtíðin að veiðiskip taki virkan þátt í loðnumælingum undir stjórn Hafró og allt samstarf okkar við stofnunina hefur verið hið ánægjulegasta. Það er gríðarlega mikið af loðnu út af Suðausturlandinu. Við keyrðum þarna í 10 sjómílur í lóði og fórum aldrei vestur úr því. Aflann fengum við á Lónsvíkinni og þar var mikið líf. Þarna var til dæmis mikill fjöldi hvala. Nú eru Norðmenn að veiða norður við Langanes og í sumar þegar við vorum að leita að makríl við Grænland fundum við mikið af fallegri loðnu vestan við Angmassalik. Kannski verður sú loðna uppistaðan í vestangöngu í ár ? Það er víða loðna á ferðinni,“ sagði Geir.

Eins og flest íslensk loðnuskip liggja Síldarvinnsluskipin í höfn í Neskaupstað. Beitir NK landaði 1.320 tonnum af kolmunna um helgina en aflinn fékkst í færeysku lögsögunni.

 

Deila: