Gætum sótt 7.000 tonn af þorski í lögsögu Rússa
Veiðiheimildir Íslands í þorski innan lögsögu Rússa í Barentshafi samkvæmt Smugusamningnum svokallaða verða um 4.400 tonn. Að auki er eins og áður möguleiki til að leigja heimildir upp á 2.646 tonn af þorski. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu.
Á síðasta ári voru veiðiheimildir Íslands innan lögsögu Rússlands um 4.300 tonn og voru tæplega 1.100 tonn óveidd um áramótin og möguleikar á leigu veiðiheimilda ekki nýttir. Ekki kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins, hvort heimilt er að flytja ónýttar veiðiheimildir síðasta árs yfir á þetta. Ekki er búið að færa inn á aflastöðulista Fiskistofu hvernig heimildir þessa árs skiptast á milli skipa.
Í fyrra lönduðu 6 skip afla úr Barentshafi. Mestar heimildir þá höfðu Örfirisey og Kleifabergið um 1.100 tonn, Kleifabergið nýtti sínar heimildir allar, en vegna bilunar náði Örfirisey ekki að nýta sínar og voru um 540 tonn af kvóta hennar ónýtt. Tilkynning ráðuneytisins fer hér á eftir:
„Haldinn var samningafundur í fiskveiðinefnd Íslands og Rússlands daganna 19.-20. febrúar. Umræðuefnið var að venju framkvæmd svokallaðs Smugusamnings frá 1999 milli Íslands, Noregs og Rússlands um þorskveiðar íslenskra skipa í lögsögu Noregs og í þessu tilviki í lögsögu Rússlands fyrir árið 2018. Í samningnum er um tvenns konar kvóta að ræða. Annars vegar þann sem ekkert er greitt fyrir og svo hins vegar kvóta sem Ísland fær ef samningar takast um verð.
Samningar tókust um magn og verður heildarafli þorsks sem ekkert er greitt fyrir alls 4.409 tonn. Með þessu þorskmagni verður heimill meðafli 30% ofan á magn þorsks en þó má magn ýsu ekki nema meiru en 352 tonnum. Eftir er að ganga frá samningum um verð fyrir hinn svokallaða keypta kvóta en hann er í ár ákveðinn alls 2.646 tonn. Með honum fylgir einnig 30% meðafli, en þar eru takmörk á ýsu 265 tonn. Þá er einnig hluti af samkomulaginu að Rússland fær 1.500 tonn af makríl til veiða á úthafinu af makrílkvóta Íslands.“