Tælenskar fiskibollur
Fiskibollur hafa lengi líklega verið einhver algengasti matur á borðum okkar Íslendinga, að minnsta kosti þeirra sem eru komnir yfir miðjan aldur. Í raun einhver besti hversdagsmatur sem hægt er að bjóða upp á. Fjölbreytni í fiskbollugerð hefur ekki verið mikil lengst af, þessar gömlu góðu pönnusteiktar með lauk og bræddu sméri eða brúnni sósu og soðnum kartöflum klikka hreinlega ekki, svo fremi sem hráefnið sé gott. Kosturinn við fiskbollurnar er líka að hentugt getur verið að gera alveg helling af þeim í einu og frysta síðan í hæfilega skammta eftir fjölskyldustærð. Þá er bara að sjóða kartöflur, bræða smér og hita bollurnar upp. Við kaupum til dæmis oftast um 5 kíló af góðu farsi og steikjum um 120 bollur í einu, eigum alltaf bollur í frystinum. Mjög búsældarlegt.
Ýmsar fleiri leiðir má auðvitað fara og gott getur verið að breyta aðeins til. Þessa uppskrift fundum við í bæklingi frá síðustu öld, en hún er ættuð frá Tælandi.
Innihald:
1 laukur
2 hvítlauksrif
1 stilkur sítrónugras
50 g krabbakjöt
500 g ýsu- eða þorskhakk
1 egg
½ sítróna eða límóna (börkur og safi)
1-2 tsk sambal oelek
Salat:
1 agúrka
1 chilipipar (rauður)
1 rauðlaukur
1 límóna (börkur og safi)
1 tsk fiskisósa
1 tsk sykur
172 dl jarðhnetur (ósaltar)
Aðferðin:
Afhýðir og saxið lauk, hvítlauk og sítrónugras. Rífið börk af sítrónu/límónu. Saxið krabbakjöt og bætið saman við fiskhakkið. Blandið öllu saman ásamt eggi, sambal oelek og fiskisósu. Hitið olíu á pönnu. Mótið litlar fiskibollur og steikið í 5 mínútur hvoru megin. (Athugið fiskbollurnar verða flatari en þær sem við eigum að venjast.)
Salat:
Afhýðið agúrku og skerið í tvennt eftir endilöngu og síðan í sneiðar. Fínsaxið lauk, fjarlægið kjarna úr chilipipar og fínsaxið. Rífið börk af sítrónu/límónu og kreistið safann úr. Blandið öllu saman við fiskisósuna ásamt sykri. Bætið gúrkusneiðunum saman við og stráið jarðhnetum yfir salatið
Sjóðið 2 ½ dl af jasmínhrísgrjónum skv. leiðbeiningum á pakka og berið fram með fiskibollunum.