Veitt eftir veðri

Deila:

Landað var úr frystitogaranum Blængi NK í Norðfjarðarhöfn í gær. Skipið hélt til veiða 9. febrúar og er aflinn 540 tonn upp úr sjó að verðmæti um 125 milljónir. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að það hafi verið bræla nánast alla veiðiferðina og það hafi verið veitt eftir veðri.

„Við byrjuðum norðaustur af landinu, héldum síðan suður fyrir land, þá á Vestfjarðamið og loks var karfi veiddur á Melsekk. Þrátt fyrir brælu var veiði allan túrinn. Það var til dæmis ágæt ufsaveiði á Vestfjarðamiðum og mjög góð karfaveiði á Melsekk í lokin,“ sagði Bjarni Ólafur í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný á föstudagskvöld.

 

Deila: