Ójafnræði milli atvinnugreina og þjóða

Deila:

„Veiðigjaldið í dag er um 11,7 milljarðar – eða rúmar 32 milljónir á dag, alla daga ársins.  Má nefna að sjávarútvegur hjá einni helstu samkeppnisþjóð okkar, Noregi, borgar ekki veiðigjöld.  Þess utan þá greiða aðrar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins engin auðlindagjöld.  Þetta er  ójafnræði bæði fyrir okkur sem þjóð í samkeppni á erlendum mörkuðum og ójafnræði milli atvinnugreina sem nýta auðlindir landsins.“ Svo sagði Jens Garðar Helgason, formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja  í sjávarútvegi í ræðu sinn á ársfundi samtakanna á föstudag. Ræða hans fer hér á eftir:

Ár framfara, fjárfestinga og nýsköpunar

Undanfarin ár hafa verið ár framfara, fjárfestinga og nýsköpunar í íslenskum sjávarútvegi.  Íslenskur sjávarútvegur hefur enn og aftur sýnt að hann er í forystu á alþjóðavettvangi.  Hvergi annarsstaðar í heiminum blómstrar nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi líkt og hér. Nú á dögunum voru íslensku þekkingarverðlaunin veitt.  Við val á þekkingarfyrirtæki ársins er horft til fyrirtækja sem eru leiðandi í stafrænum lausnum og hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi fyrirtækisins. Leitað var eftir fyrirtækjum sem hafa með aukinni sjálfvirkni bætt þjónustu, afköst, nýtingu og framleiðni. Einnig var mikilvægt að fyrirtækin störfuðu í sátt við samfélagið og væru með ríka umhverfisvitund.  Hlaut Vísir hf. í Grindavík íslensku þekkingarverðlaunin og af fjórum fyrirtækjum sem tilnefnd voru, voru þrjú í sjávarútvegi.  Þetta segir allt sem segja þarf um framlag greinarinnar til nýsköpunar og framþróunar.

En forystuhlutverk er ekki sjálfgefið eða sjálfsprottið.  Úr jarðvegi fiskveiðistjórnunarkerfisins, þar sem áhersla á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlindar er leiðarstef, höfum við byggt upp framsækinn sjávarútveg.  Á þessum grunni hafa orðið til þúsundir starfa í tækni og þjónustufyrirtækjum sem sækja nú fram á alþjóðavettvangi – fyrirtæki eins og Vélfag, Skaginn, Valka, Marel, Kapp og mörg fleiri.  Við höfum skapað iðnað þar sem þúsundir hámenntaðra Íslendinga vinna við vöruþróun og framleiðslu á hátæknibúnaði fyrir fiskvinnslu og aðra matvælaframleiðslu. Íslenskur sjávarútvegur er því, þegar betur er að gáð, drifkraftur nýrra starfa í hug- og handverksiðnaði.

Það eru því gömul sannindi og ný að úr frjóum jarðvegi spretta tækifærin og við Íslendingar höfum svo sannarlega nýtt okkur þau.  En undanfarin misseri má segja að hinn frjói jarðvegur greinarinnar hafi súrnað svo um

munar og er súrnunin í formi aukinna álagna og gjalda á íslenskan sjávarútveg sem á sér enga hliðstæðu hjá samkeppnisþjóðum okkar.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að yfir 98% af íslenskum fiskafurðum eru til útflutnings á erlenda markaði í samkeppni við aðrar fiskveiðiþjóðir.

Þetta er hörð samkeppni og því mikilvægt að íslensk stjórnvöld hlúi að umhverfi greinarinnar hér heima fyrir og sjái til þess að álögur og gjöld séu ekki úr takti við það sem gerist hjá samkeppnisþjóðum okkar.

Engin veiðigjöld í Noregi

Því skýtur það skökku við að horfa uppá veiðigjöld sem eru svo úr takti við afkomu greinarinnar að mörg sjávarútvegsfyrirtæki eru að sligast undan þeim.  Veiðigjaldið í dag er um 11,7 milljarðar – eða rúmar 32 milljónir á dag, alla daga ársins.  Má nefna að sjávarútvegur hjá einni helstu samkeppnisþjóð okkar, Noregi, borgar ekki veiðigjöld.  Þess utan þá greiða aðrar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins engin auðlindagjöld.  Þetta er  ójafnræði bæði fyrir okkur sem þjóð í samkeppni á erlendum mörkuðum og ójafnræði milli atvinnugreina sem nýta auðlindir landsins.

Í desember  gáfu SFS út umhverfisskýrslu í tilefni að því að þá voru tvö ár liðin frá undirritun Parísarsamkomulagsins.  Í þeirri skýrslu kemur m.a fram að íslenskur sjávarútvegur er eina atvinnugreinin á landinu sem hefur nú þegar náð markmiðum samkomulagsins.  Kemur það m.a til útaf rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna og endurnýjun skipaflotans.  Því skýtur það skökku við að íslensk stjórnvöld hækkuðu svo kallað kolefnisgjald um 50% síðastliðin áramót og stefna að því að hækka það um önnur 20% á kjörtímabilinu. Nam hækkun gjaldsins nú um áramótin um 600 milljónum á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.  Í ljósi þess að margar atvinnugreinar, eru undanþegnar kolefnisgjaldinu þá eru þessar hækkanir

furðuleg skilaboð til þeirrar atvinnugreinar sem náð hefur mesta árangrinum  í atvinnulífinu til að minnka kolefnisspor á Íslandi.  Furðuleg skilaboð sem enn og aftur draga úr samkeppnisforskoti Íslendinga.

80 milljónir í stimpilgjöld

Gjaldskrár eftirlitsstofnana hafa tekið stökkbreytingum undanfarin ár og hafa í sumum tilfellum hækkað um okkur hundruð prósent.  Hver skyldi hafa verið næstlaunahæstur um borð í febrúartúr á togaranum Blæng? Heiðrún Lind mun svara því hér á eftir.

Meðalhóf og jafnræði í skattheimtu á að vera á milli atvinnugreina og því skýtur það skökku við að útgerðarfyrirtæki, ein fyrirtækja í landinu, þurfi að borga stimpilgjöld af nýjum skipum sem og eldri skipum sem keypt eru til landsins.  Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar orðaði þetta svo réttilega á aðalfundi félagsins, en hann sagði orðrétt: “Þegar Beitir var keyptur þurfti að greiða yfir 80 milljónir króna í stimpilgjöld. Það þarf hins vegar engin slík gjöld að greiða af flugvél sem keypt er til landsins, ekki heldur af flutningaskipum íslenskra skipafélaga, sem eru reyndar öll skráð erlendis, eða af vinnuvélum eða virkjunum. Hér hafa fiskiskipin algera sérstöðu og öll önnur atvinnutæki eru undanþegin stimpilgjöldum”.

Góðir fundarmenn – af því sem hér hefur verið sagt, er óhætt að fullyrða að sjávarútvegur og stjórnvöld verða að ganga í takt.  Hagsmunir þjóðarinnar eru að Íslendingar eigi atvinnugreinar sem sækja fram á erlendum mörkuðum og auki þar með efnahagslega farsæld þjóðarinnar.  Hagsmunir þjóðarinnar eru því líka þeir að stjórnvöld gæti hófs í gjaldtöku og skattheimtu þannig að atvinnulífið blómstri og dafni.  Góður maður sagði eitt sinn að:”If it moves, tax it.  If it keeps moving, regulate it. And if it stops moving, subsidize it”.  Þetta er ekki falleg sýn á hvernig stjórnvöld líta á rekstur fyrirtækja og ég veit að þetta er ekki sýn núverandi stjórnvalda.  Því er svo mikilvægt að við göngum öll í takt með sameiginlega framtíðarsýn.  Landi og þjóð til heilla.

Þrátt fyrir að rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs sé erfitt nú um stundir þá hefur greinin einnig sýnt að þrátt fyrir það ætlar hún að vera áfram í fremstu röð – horfa fram veginn og halda stöðu sinni sem sjávarútvegur í forystu á heimsvísu.  Með skilvirku fiskveiðistjórnunarkerfi, nýjum og bættum fiskiskipaflota, fjárfestingu og tæknivæðingu í landvinnslu og með stöðugri sókn í nýsköpun og markaðssetningu íslenskra sjávarafurða höldum við ótrauð áfram á þeirri braut.  Ef einhverjir kunna að stíga ölduna í miklum sjó þá eru það íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og eins og oft áður munum við kinnroðalaust og stolt takast á við hverjar þær áskoranir sem á leið okkar verða, þjóðinni til heilla.

Deila: