Forsætisráðherra leggur til óbreytt veiðigjöld til áramóta

Deila:

Forsætisráðherra leggur til óbreytt veiðigjöld til ársloka. Núgildandi lög verði þannig framlengd. Hún segist með þessu vera að sætta sjónarmið svo þinghald geti farið sómasamlega fram. Ekkert yrði þá af frumvarpi um lækkun veiðigjalda. Formaður Samfylkingarinnar fagnar því, enda sé frumvarpið glórulaust. Frá þessu var greint á ruv.is í gær og er fréttin svohljóðandi:

Ítrekað hefur verið gert hlé á þingfundi í gær og í dag, til að liðka til fyrir fundum formanna flokka og þingflokka, sem og öðrum fundum. Þrátt fyrir það hafa nokkur frumvörp orðið að lögum í dag. Þeirra á meðal er frumvarp Framsóknarþingmannanna Silju Daggar Gunnarsdóttur og Willums Þórs Þórssonar um ætlað samþykki fyrir brottnámi líffæris látins einstaklings. Margoft hefur verið reynt að koma þessu máli í gegnum þingið.

En stærsta málið sem staðið hefur í Alþingi síðustu daga er frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um lækkun veiðigjalda, sem hefur hleypt öllu í bál og brand. Meirihluti stjórnarandstöðu leggst alfarið gegn frumvarpinu og það hefur reynst Vinstri grænum þungt.

Nota allan sinn rétt til að stoppa málið

„Ég hef lagt það upp þannig að ef veiðigjöldin og innheimta þeirra verði bara óbreytt frá því sem nú er til ársloka, hvort það sé þá einhver forsenda fyrir því að við getum þá náð samkomulagi um aðra þætti þinghaldsins,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. „Ég er auðvitað bara að vinna samkvæmt því að reyna að sætta hér sjónarmið, þannig að þinghaldið geti farið sómasamlega fram,“ segir hún aðspurð hvort um uppgjöf hafi verið að ræða. „Ég legg áherslu á það að við römmum þá inn þá umræðu sem eftir er, þannig að við sjáum það fyrir hvenær þinginu verði lokið og það verði sem fyrst,“ segir hún að lokum.

„Við höfum talað um það að við munum nota allan okkar rétt, málfrelsi, tillögurétt og annað til þess að stoppa þetta mál sem er glórulaust,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. „Það er mikilvægt að við klárum þau mál sem þarf að klára, auðvitað er best að gera það í góðri sátt en það er heldur ekkert að því þótt fólk takist aðeins á,“ segir hann.

„Við höfum haft kannski svolítið aðra skoðun á þessu veiðigjaldamáli heldur en restin af stjórnarandstöðunni en þetta er líka mál sem hefur verið erfitt fyrir stjórnarflokkana, við höfum séð það, sérstaklega Vinstri græna,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins. „En mestu skiptir nú samt sem áður að málin sem að þurfa að klárast fái að klárast, önnur geti beðið,“ bætir hann við.

Þótt veiðigjaldafrumvarpið sé flöskuhálsinn, bíða fjölmörg önnur mál afgreiðslu þingsins. Þar á meðal er persónuverndarreglugerð, að ógleymdri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Svo eiga flestir flokkar sín mál sem þeir vilja ná í gegn.

 

Deila: